150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Jú, það er ákveðin hagræðing og, eins og ég segi, við þurfum að hagræða í þessum rekstri. En annað sem ég hef tekið eftir undanfarið, það er eiginlega erfitt að segja það um hæstv. ráðherra en hann er einhvern veginn flottasta daman á ballinu núna í þessum töluðu orðum vegna þess að svo virðist sem bæði Kína, Bandaríkin og jafnvel Rússland vilji dansa við hann og bjóða honum gull og græna skóga. Þeir eru með Belti og braut, Kínverjarnir, og Ameríkanar vilja kaupa Grænland og spurning hvort þeir vilji ekki kaupa Ísland líka.

Síðan er það auðvitað Rússland. Mig langar að spyrja hann um það vegna þess að við erum enn í þessu stórfurðulega viðskiptabanni við Rússa. Er ekki kominn tími til, akkúrat núna meðan allir vilja sækja Ísland heim og gera allt fyrir okkur, að losa um þá stíflu? (Gripið fram í.) Ha? (RBB: Fá Pútín líka bara?) Já, af hverju ekki? Er hann eitthvað verri heldur en þeir kínversku eða Trump í Bandaríkjunum? Ég sé það ekki. Þetta eru allt stórveldi og þeir virðast hafa einhverja rosalega ást á Íslandi þessa stundina og ég tel að við ættum að nýta okkur það, algjörlega, vegna þess að við viljum vera í viðskiptum við öll þessi lönd. Af hverju eigum við að taka eitt út úr og segja: Við skulum vera í viðskiptum við Kína en við viljum ekki vera í viðskiptum við Rússland af því að Pútín er þar? Getum við þá ekki alveg eins sagt: Við viljum ekki vera í viðskiptum við Bandaríkjamenn af því að Trump er þar? Ég sé því miður ekki mikinn mun þarna á.