150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og er svona aðeins að melta það sem hv. þingmaður sagði. Ég hef verið kallaður ýmislegt, virðulegur forseti, í gegnum tíðina en aldrei dama, hvað þá falleg dama. Ég fer bara með þetta inn í helgina [Hlátur í þingsal.] og kýs að ræða það ekkert frekar og veit ekkert hvernig ég á að taka því.

En varðandi það að allir séu að bjóða okkur gull og græna skóga þá höfum við lagt áherslu á það að efla samskipti við þjóðir og það kemur ekki af sjálfu sér að við fáum þessa athygli eða heimsóknir. Það gerist ekki af sjálfu sér. En á sama tíma er mikilvægi okkar að aukast út af staðsetningu okkar, m.a. út af norðurskautsmálum. Í því felast ekki bara tækifæri, í því felast líka ógnanir og við þurfum að stíga varlega til jarðar og hugsa vel hvernig við vinnum úr því.

Við höfum ekki sett neinar viðskiptaþvinganir á Rússa, þeir settu viðskiptaþvinganir á okkur. Við tókum þátt í því vegna þess að þeir brutu alþjóðalög. Hér er ég að vísa í innlimun Krímskaga sem er mjög alvarlegt mál og þau átök hafa kostað 10.000 manns lífið. Allar þjóðir hafa hag af því að halda alþjóðalög en enginn meira en smáþjóðir og við hljótum alltaf að standa með því þegar farið er í aðgerðir til að mótmæla því að menn séu að brjóta alþjóðalög. Á hinn bóginn höfum við unnið mjög að því að efla viðskiptin við Rússland. Það hefur gengið eftir. Þau hafa aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum og það hafa farið margar viðskiptasendinefndir og búið er að stofna íslenskt-rússneskt viðskiptaráð og við sjáum núna stóra samninga sem hafa verið gerðir af hátæknifyrirtækjunum okkar, svo ég vísi í Marel, Skagann 3X og önnur slík fyrirtæki. Það er auðvitað partur af hagsmunagæslu okkar. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður þarf eiginlega að spyrja Pútín, ég er búinn að gera það sjálfur, hvort hann vilji ekki hætta þessum viðskiptaþvingunum á okkur því að við ráðum ekki þeirra málum.