150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans yfirferð yfir málaflokk sinn, umhverfismál. Ég ætla að spyrja hann nokkurra spurninga. Fyrst um kolefnisgjaldið. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að kolefnisgjaldið hækki um 10%. Bensín og olía hækka því og fer það beint út í verðlag og vísitölu og þannig hækka verðtryggð lán landsmanna. Eftir þessa hækkun verða tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldinu 6,4 milljarðar. Hefur hæstv. ráðherra látið kanna þann kostnað sem skuldarar þessa lands hafa mátt bera vegna hækkunar á vísitölu vegna álagningar kolefnisgjaldsins og þar með hækkunar á verðtryggðum húsnæðislánum landsmanna? Hefur það verið kannað?

Á fundum með fjárlaganefnd staðfestu fulltrúar umhverfisráðuneytisins að ekki væri unnt að staðfesta árangur af álagningu þessa gjalds. Ekki ætla ég að gera lítið úr loftslagsvánni en hér virðist um dæmigert fálm að ræða. Ný skattlagning er klædd í indælan búning og fagur tilgangur látinn réttlæta aukna skattlagningu. Þess vegna spyr ég líka: Finnst hæstv. ráðherra forsvaranlegt að leggja slíkan skatt á bifreiðaeigendur, útgerðir, bændur og aðra landsmenn, ef ekki er vitað hverju hann skilar hvað varðar yfirlýstan tilgang gjaldsins, nefnilega umhverfislega?

En við vitum mætavel, herra forseti, hverju hann skilar í ríkiskassann, 6,4 milljörðum.