150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og innleggið. Almennt gildir sú regla að verð hefur áhrif á eftirspurn. Kolefnisgjald er einfaldlega til þess fallið að senda skilaboð út í hagkerfið um að losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið kosti fjármuni. Það er næsta ljóst að gjaldið hefur áhrif í þá átt að hvetja fólk og fyrirtæki til að draga úr losun. Það er grundvallaratriði. Hagfræðingar eru almennt hlynntir hagrænum aðgerðum á borð við álagningu kolefnisgjalds til að ná árangri í umhverfismálum vegna þess að það sendir skilaboð út í hagkerfið um að losun kosti en einstaklingar og fyrirtæki hafi síðan svigrúm til að bregðast við á sem hagkvæmastan hátt.

Það er hins vegar góð og eðlileg spurning að vilja vita nákvæmlega hversu mikil áhrif kolefnisgjaldið hefur og fá einhverja tölu á það, það tek ég algjörlega undir. Við í ráðuneytinu höfum beðið um skoðun sérfræðinga á því í tengslum við uppfærslu á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og ég reikna með að hægt verði að kynna niðurstöðuna innan skamms. Útreikningarnir sem ég hef séð benda til að gjaldið hafi þau áhrif að heimili noti 1,5–2% minna af bensín og dísli vegna núverandi kolefnisgjalds, miðað við það ef ekkert gjald væri lagt á. En það er erfiðara að meta líkleg áhrif gjaldsins á fyrirtæki. Til þess eru ekki nægar upplýsingar fyrir hendi og þarf að skoða sérstaklega. En eins og ég segi á ég von á því að við getum kynnt mat á þessu mjög fljótlega.