150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:28]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég ætla að vera á svipuðum nótum í síðara innleggi mínu. Nú ætla ég að tala um annan skatt sem sömu sjónarmið eiga við um og um kolefnisgjaldið, en þó ekki alveg. Þar er ég að tala um fyrirhugaðan urðunarskatt sem reifaður er í frumvarpi sem fyrirhugað er um breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009. Staðreyndin er sú að ríkið hefur engan kostnað af urðun og í forsendum með þessum nýja skatti er ekki að finna neinar fyrirætlanir í þá átt að skatturinn eigi að gera aðrar leiðir vænlegri, nefnilega brennslu eða endurvinnslu. Einkaaðilar reka ekki urðunarstaði og því er einungis verið að skattleggja almannaþjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum sínum og ríkisvaldið hefur þar enga aðkomu að.

Þá er einkennilegt að leggja á urðunarskatt á sama tíma og fyrirhugað er að banna urðun. Þetta fer ekki saman, herra forseti. Því get ég endurtekið svipaða spurningu varðandi urðunarskattinn og kolefnisskattinn. Eru fyrirætlanir sem ekki hafa litið dagsins ljós um að fyrirhuguðum urðunarskatti sé ætlað að gera brennslu úrgangs mögulega, t.d. með því að reisa hér fullkomna sorpbrennslustöð? Eru fyrirætlanir um að styðja við verkefni um að reisa hér fullkomnari endurvinnslu- eða flokkunarstöðvar með því að láta skattinn renna til þeirrar starfsemi en ekki bara beint í ríkissjóð? Eða á skatturinn að fara í að niðurgreiða útflutning á sorpi til útlanda og eyðingar þar?

Spurningar mínar ganga út á að greina ætterni hinna svokölluðu umhverfisskatta ríkisstjórnarinnar, hvort um raunverulegt skref í átt til betri umgengni við náttúruna sé að ræða og þar með verið að sporna við útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Eða er þetta, eins og ég hef hér farið yfir og margt bendir til, bara enn ein skattlagningin?