150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans innlegg og ég deili því algerlega með hv. þingmanni að þetta er stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir. Ég er ánægður með að heyra að hv. þingmaður endurómar það sem heyrist hjá langflestum, bæði hér inni á þingi og úti í samfélaginu, að hér er róttækra aðgerða þörf. Það hefur verið brugðist við og gripið til fjölmargra aðgerða nú þegar á vegum stjórnvalda. Ég get nefnt sem dæmi aukinn kraft í að byggja upp innviði þegar kemur að rafmagnsbílum og ívilnanir sem má benda á. Það má sjá í fréttum í dag að ívilnanir vegna umhverfisvænni bíla eru 3 milljarðar árlega. Við erum í öðru sæti þegar kemur að innflutningi nýrra umhverfisvænna bíla í heiminum á eftir Noregi með 20% hlutdeild og svona mætti lengi telja. Aðgerðir í málefnum sem snúa að endurheimt votlendis, kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt og fjölmargar aðrar aðgerðir.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að Ísland hafi einungis kynnt markmiðin um 29% með Evrópusambandinu heldur kom það skýrt fram þegar búið var að deila út okkar hlutdeild í samkomulaginu við Evrópusambandið, sem vissulega er 29% samdráttur, að við ætluðum okkur að ná 40% árið 2030 líkt og er heildarmarkmið Evrópusambandsins og síðan náttúrlega, eins og hv. þingmaður þekkir, kolefnishlutleysi 2040.