150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka umræðuna um metanið lengra. Þetta tel ég að sé einn af þeim þáttum þar sem við eigum heilmikið inni og vil nefna sem dæmi að áfyllingin á metanbifreið, ef ég skil það rétt, getur dugað frá Reykjavík til Ísafjarðar en svo er engin stöð á Ísafirði. Hvers vegna getum við ekki haft metanstöðvar víðar á landinu þó svo að ekki sé framleitt metan á staðnum, rétt eins og við getum haft bensín- og dísilstöðvar dreifðar um landið án þess að það sé framleitt á staðnum? Þetta er eitthvað sem ég veit að sá hópur sem núna vinnur að því að koma með nýjar tillögur um eða upp úr áramótum lítur til. Mér skilst að þetta séu ekki dýrustu aðgerðirnar sem hægt er að ráðast í, það sé t.d. mun dýrara að ráðast í innviði vegna vetnisins. Ég er ekki með á hraðbergi hve stór hluti getur nýtt það metan sem til er í dag eða verður til þegar höfuðborgarsvæðið fer í auknum mæli í það en get útvegað hv. þingmanni þær upplýsingar, séu þær til.

Varðandi náttúrustofurnar eru þær svolítið í uppáhaldi hjá mér en ég hef aðeins 26 sekúndur. Ég byrja bara. Við gengum á þessu ári frá samningum við 20 sveitarfélög um rekstur á þeim átta náttúrustofum sem eru í landinu og gerðum langtímasamninga til 2023, þannig að við erum að treysta mjög rekstrargrundvöllinn og rekstraröryggið hjá náttúrustofunum til fimm ára. Ég held áfram á eftir.