150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég skal gera mitt allra besta, hv. þingmaður, til að veita von enda er hv. þingmaður líka duglegur við það finnst mér. Varðandi þær áætlanir sem við höfum kynnt í ráðuneytinu og kynntum í júlí sl. erum við að horfa á næstu fjórum árum til tíföldunar þegar kemur að framlögum til votlendis og tvöföldunar þegar kemur að skógrækt annars vegar og tvöföldunar þegar kemur að landgræðslu hins vegar. Það sem þingmaðurinn nefnir síðan varðandi upphæðir eins og þær sem endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu þá höfum við ekki enn þá í rauninni sett alla summuna sem tilheyrir kolefnisbindingunni á stofnanir eða sérstök verkefni heldur er hluti af því enn þá eftir á safnliðum. Þetta er gert vegna þess að það á eftir að útdeila að hluta til því sem þarna er fyrir hendi.

Það má alveg gagnrýna að safnliðirnir séu háir og grunar mig að sá þingmaður sem næstur er í pontu ætli að gera það svo að það er kannski ágætt að byrja að svara strax. En þegar verkefnin eru umfangsmikil þá sem betur fer aukast þau framlög sem verið er að setja til málaflokksins og það tekur tíma að vinna úr því og kannski aðeins of langan, hv. þingmenn sem horfa á mig. Ég get reynt að útskýra það betur á eftir en vona að þetta hafi svarað í grundvallaratriðum því sem hv. þingmaður spurði um.