150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta var ágætiságiskun en ég ætla samt í aðeins aðra sálma, það er margt að tala um á stuttum tíma. Ómældi skaðinn sem var talað um áðan, það er eitt sem við þurfum að glíma dálítið við, kostnaðurinn af því að standa ekki undir skuldbindingum. Við þurfum að fá þessa áætlun um hversu mikið þetta komi til með að kosta okkur og spurningin er í rauninni hvenær við fáum hana. Ástæðan fyrir því að við þurfum að fá hana er til þess hafa leiðbeiningar í ákvörðunartökunni og til þess að geta metið ábatann af því að taka ákvarðanir sem koma til með að kosta minna því að ábatinn er tvöfaldur í því tilviki væntanlega, t.d. ágóði af uppgræðslu og skógrækt. Það er ákveðinn ábati af því til að byrja með. En það dregur líka úr kostnaðinum sem við myndum standa undir að lokum.

Hin spurningin er varðandi losunarheimildirnar sem við erum að selja. Það er um 1 milljarður kr. sem við fáum fyrir sölu losunarheimildanna, það var 1,3 í fyrra og 290 milljónir árið þar áður, þetta er mjög sveiflukennt. Nú hefur verðið hækkað þó nokkuð mikið að undanförnu. En ég velti fyrir mér af hverju upphæðin lækkar frá því í fyrra og hvað gerist í rauninni ef við ákveðum að selja ekki. Hvað þýðir það fyrir skuldbindingar okkar um losun? Getum við t.d. tekið þær sem plús? Getum við skrúfað upp verðið á einhvern hátt, er uppboðskerfið þannig að við gætum reynt að selja á hærra verði?