150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hvað varðar vöktun með náttúruvá er henni eins og staðan er í dag sinnt m.a. af Veðurstofu Íslands og reyndar koma fleiri aðilar þar að. Það er að mörgu leyti mjög umfangsmikið, bæði hvað varðar hættu á eldgosum, skriðuhættu og fleiri gerðir af vá. Ég vil nefna sérstaklega þá auknu hættu á skriðuföllum sem hefur myndast á undanförnum árum, m.a. vegna þess að sífreri er að þiðna í fjallshlíðum. Þó svo að það atvik sem gerðist í Reynisfjöru kunni ekki endilega að vera tengt því má leiða að því líkur að þannig sé það sums staðar annars staðar á landinu, ég vil nefna sem dæmi að það féll risastórt flóð á heimaslóðum mínum í Hítardal á Mýrum í fyrra. Þetta er atriði sem við erum að vinna núna að því að auka í með Veðurstofunni og erum búin að tryggja á næsta ári aukalega eina manneskju eða eitt stöðugildi til að sinna rannsóknum á því sviði. Þegar kemur að strandsvæðisskipulaginu er það sett upp sem þriggja ára verkefni, ef ég man það rétt. Sú vinna hófst á fyrri hluta þessa árs. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er hún hafin, ekki komin langt en hún er byrjuð þannig að ég fylgist vel með því hjá Skipulagsstofnun og nefndunum sem þarna eru að störfum.