150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar kannski fyrst að gera að umtalsefni þær breytingar sem eru að verða varðandi græna skatta og hækkanir þar á. Við í Viðreisn styðjum þær heils hugar þó að við myndum gjarnan vilja sjá aðra skatta lækka á móti. Ég held að við þurfum einmitt að beita skattkerfinu með mun ákveðnari hætti en við gerum til þess að knýja á um nauðsynlegar breytingar. Þar óttast ég kannski, og hefði áhuga á að heyra aðeins betur sjónarmið ráðherra í þeim efnum, að það sé einfaldlega ekki stuðningur við það í þessari ríkisstjórn, t.d. varðandi það að kolefnisgjöld séu með nægjanlega skýrum hætti notuð til þess að knýja á um orkuskipti í samgöngum. Sömuleiðis hlustaði ég eftir þeirri gagnrýni, sem heyrst hefur, að einmitt innviðauppbyggingin í þeim efnum gangi allt of hægt fyrir sig.

Ég og hæstv. ráðherra höfum svo sem átt þetta samtal áður, við höfum ákveðnar áhyggjur af því að of mikill þungi í loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar liggi í breyttri landnotkun, skógrækt og endurheimt votlendis. Það er vissulega mikilvægur þáttur en það er engan veginn nægilega mikil áhersla á að draga úr kolefnislosun. Kannski má segja að við séum að beita einhvers konar syndaaflausn í staðinn.

Í öðru lagi hefði ég líka áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra þegar kemur að landnotkuninni. Það er kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi hér að tala um landbúnað og loftslagsmál og þá alþjóðlegu áherslu að breyta neyslumynstri, draga úr kjötneyslu og breyta stuðningskerfi landbúnaðarins í þá veru að hvetja til breyttrar landnotkunar en draga úr framleiðslu og hvað þá niðurgreiðslu á útflutningi á lambakjöti sem dæmi. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í þá veru hvað við getum gert til að knýja á um sambærilegar breytingar hér og verið er að leggja til alþjóðlega.