150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og ég er einmitt sammála því að þetta er algjört lykilatriði, t.d. varðandi útfærslu á urðunarskatti. Ég heyri áhyggjur að norðan þar sem íbúar Akureyrar og nágrennis hafa náð talsvert betri árangri en við á höfuðborgarsvæðinu í moltugerð og úrvinnslu á lífrænum úrgangi og þar hefur þar af leiðandi dregið verulega úr urðun. En það verður að vera réttur hvati. Bæði þurfa viðkomandi sveitarfélög og íbúar þeirra að njóta þess að standa sig vel í þessum efnum. Það er einmitt stórhættulegt að nýta þetta eingöngu sem flata skattheimtu sem ekki skilar árangri í að draga úr úrgangi í þessu tilfelli eða losun í tilfelli gjalda eins og kolefnisgjalda.

Þess vegna velti ég því aftur fyrir mér, líka í tengslum við landnotkun og landbúnaðinn, hvernig við getum tvinnað þessa hagsmuni saman. Það er alveg augljóst að hátt hlutfall okkar losunar stafar af framræslu votlendis vegna landbúnaðar. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að við viljum beina stuðningskerfi landbúnaðarins meira í þá átt að endurheimta votlendi og í skógrækt og draga á móti úr framleiðslu sem því nemur. Þetta er auðvitað viðkvæmt umræðuefni en í þessum hugleiðingum er ég ekki að leggja til að dregið sé úr stuðningi við landbúnaðinn. Það sem við flöskum svo oft á hér er að við erum með stefnur sem togast á. Við erum með landbúnaðarstefnu sem togast á við umhverfisstefnu okkar og þarna þurfum við að ná að tvinna betur saman hagsmuni okkar þannig að bæði landbúnaðarstefnan okkar og loftslagsstefnan, eða umhverfisstefnan, vinni saman í að ná markmiðum okkar, bæði hvað varðar stuðning við landbúnað en ekki síður hvað varðar að ná markmiðum okkar í að draga úr losun.

Síðast vil ég bara taka undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Ég hef verulegar áhyggjur af þessari skuldbindingu sem vofir (Forseti hringir.) yfir okkur 2030 og það er áhyggjuefni að við erum enn að auka losun þegar við höfum skuldbundið okkur til að draga verulega úr henni.