150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umhverfismála, nafna mínum, fyrir hans framsögu. Ég vil ræða við hann um græna skatta. Ég fæ alltaf hálfgerðan hroll þegar við erum að tala um nýja skatta og ný gjöld og þá aðallega vegna þeirra sem eru verst staddir í okkar þjóðfélagi. Ég spyr mig alltaf, og hann getur kannski svarað því, hvort það eigi að hlífa þeim við þessum nýju gjöldum og sköttum, urðunarsköttum og ýmsum sköttum sem eru að skella á í sambandi við umhverfismál. Ég tel að þessir einstaklingar séu ekki þeir sem menga mest og þeim ætti að hlífa skilyrðislaust við því að fá þessa skatta á sig.

En svo er annað í sambandi við þjóðgarða og aðstöðu þar, í okkar fallega landi sem fólk er að heimsækja, þ.e. aðgengi fyrir þá sem eru í hjólastólum og ganga við hækjur og göngugrindur. Ég veit að aðstaðan hefur ekki verið góð og ég sé hvergi í þessu frumvarpi hvað eigi að setja mikla peninga í að byggja upp á ferðamannastöðum aðstöðu fyrir fatlað fólk, bæði bílastæði, aðstöðu til þess að komast um svæðið og líka salernisaðstöðu og ýmislegt annað sem þetta fólk á rétt á að vita hvernig verður staðið að. Hversu miklu á að verja í þetta og hversu fljótt á að koma þessu í lag? Ég veit að þetta er ekki í lagi í dag.