150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innlegg sitt. Þegar kemur að grænum sköttum og aðgerðum í loftslagsmálum almennt er mjög mikilvægt að það sé haft í huga að þær bitni ekki á þeim sem minnst hafa. Þannig er umræðan líka alþjóðlega, að þetta sé verkefni sem sérstaklega þurfi að huga að. Þegar kemur að nýjum sköttum, urðunarskattinum og skatti á gös í kælimiðlunum, leggst sá síðarnefndi á fyrirtæki en hins vegar leggjast grænu skattarnir sem snúa að urðuninni bæði á heimili og fyrirtæki. Fyrirtækin eru með u.þ.b. 60% af urðuninni og heimilin um 40%. Og eins og ég sagði áðan í svari mínu við innleggi annars hv. þingmanns skiptir máli hvernig skatturinn verður útfærður. Ef hann er hvati og virkar raunverulega sem hvati til þess að við flokkum úrgang og drögum úr því sem er urðað, sérstaklega lífræna úrganginum, þá borgum við miklu minna og hugmyndin með skattinum er að hann verði í raun óþarfur á einhverjum tímapunkti.

Varðandi þjóðgarðana vil ég nefna að við erum að setja 3,5 milljarða 2019–2021 í innviðauppbyggingu. Hluti af því fer, sums staðar hið minnsta, í að bæta aðgengi fólks sem er með hreyfihömlun. En ég tek hins vegar hjartanlega undir það með þingmanninum að þar getum við mjög víða gert miklu betur og væri kannski ekki úr vegi að skoða það sérstaklega með hvaða hætti mætti gera betur.

Svo vil ég nefna að lokum í þessu svari að þegar við horfum á græna skatta og aðgerðir í loftslagsmálum almennt séð þarf að líta til heilsufarslegra áhrifa mengunarinnar sem hefur áhrif á okkur öll en ekki síst þá sem minna mega sín.