150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Á fimm mínútum getur maður ekki farið djúpt ofan í alla málaflokka þannig að ég ætla að skauta yfir helstu mál. Það sem ég er ánægður með í þessu fjárlagafrumvarpi er að við erum að setja málefni fjölskyldna, venjulegra fjölskyldna og barnafjölskyldna, ofar í forgangsröðuninni en verið hefur. Við erum að stíga stór skref þegar kemur að fæðingarorlofskerfinu með því að halda áfram þar sem frá var horfið á yfirstandandi ári við að endurreisa fæðingarorlofskerfið en eftir efnahagshrunið gaf það mikið eftir vegna niðurskurðar. Sú breyting sem verið er að gera er gríðarlega stór vegna þess að þarna erum við að boða lengingu í 12 mánuði í framhaldi af hækkun. Það þýðir á ársgrunni að til fæðingarorlofskerfisins fóru 10 milljarðar árið 2017 en árið 2022 verður þessi upphæð komin í 20 milljarða. Það þýðir tvöföldun sem rennur beint til barnafjölskyldna víðs vegar um landið. Þetta, samhliða breytingum og hækkunum í barnabótakerfinu, skiptir allt gríðarlega miklu máli þótt barnabæturnar heyri ekki beint undir mitt málefnasvið þar sem þær eru vistaðar hjá fjármálaráðuneytinu eins og kunnugt er.

Við erum líka í miklum aðgerðum í húsnæðismálum sem þegar eru byrjaðar að skila sér og á næsta ári munum við halda áfram þegar kemur að uppbyggingu almennra leiguíbúðakerfisins sem sett var á fót árið 2016 af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur. Þar verða á næsta ári byggðar 600 íbúðir og í það fara um 3,7 milljarðar kr. sem renna m.a. til uppbyggingar á húsnæði í samstarfi við stéttarfélög, sveitarfélög og fleiri aðila. Í húsnæðismálum erum við líka að vinna að fjölmörgum öðrum aðgerðum sem koma kannski ekki beint fram í fjárlagafrumvarpi en skipta engu að síður gríðarlega miklu máli, eins og t.d. undirbúningur á sérstökum eiginfjárlánum til handa tekjulágum einstaklingum og ungu fólki og fólki sem missti eignir sínar í efnahagshruninu. Frumvarp verður lagt fram á þessu þingi hvað þann hóp snertir.

Við erum líka í fjölmörgum aðgerðum þegar kemur að landsbyggðinni, kynntum nýverið sérstakan lánaflokk gagnvart landsbyggðinni og erum með í undirbúningi að fylgja eftir 12 aðgerðum sem kynntar voru í sumar og lúta sérstaklega að húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni sem hefur alla jafna setið eftir í uppbyggingu í húsnæðismálum. Það ætlum við ekki að láta gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Virðulegur forseti. Það eru miklar hækkanir í fjárlagafrumvarpi á milli ára sem renna til vinnumarkaðsmála og því miður er það vegna þess að við erum að auka greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa. Við þekkjum auðvitað aðdragandann að því, sem er fall flugfélagsins WOW air. Ríkisstjórnin hefur lagt sig alla fram um að vinna með íbúum á Suðurnesjum, ekki bara innan félagsmálaráðuneytisins í gegnum Vinnumálastofnun heldur líka í gegnum önnur ráðuneyti til að fylgja því eftir, og að sjálfsögðu er fjáraukning í fjárlagafrumvarpinu til að koma til móts við þetta atvinnuleysi.

Virðulegur forseti. Gagnvart hópum aldraðra er í undirbúningi frumvarp sem á að koma fram á þessu þingi til að ná sérstaklega utan um þann hóp aldraðra sem býr við verstar tekjurnar. Aðdragandi þess er að það var settur á fót starfshópur í samstarfi við Landssamband eldri borgara sem fór sérstaklega ofan í stöðu þessa hóps og frumvarp er væntanlegt í vetur til að ná utan um hann og koma upp sérstöku stuðningskerfi fyrir hann. Við erum líka í góðu samstarfi við Landssamband eldri borgara að skoða málefni aldraðra núna í víðara samhengi og með hvaða hætti við getum bætt stöðu þess hóps, bæði hvað varðar húsnæðismál, forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir, endurhæfingu og fleira. Það er gaman frá því að segja að sá hópur sem settur var af stað í framhaldinu, og allt er þetta gert í góðu samstarfi við Landssamband eldri borgara, átti sinn fyrsta fund í dag og gekk hann mjög vel.

Gagnvart örorkulífeyrisþegum er aukning í fjárlagafrumvarpinu milli áranna 2019–2020 úr 68 milljörðum upp í 74 milljarða. Það er bæði vegna lýðfræðilegrar þróunar, vegna verðlagsuppbóta og fjármagns vegna búsetuskerðinga sem við ræddum mikið á síðasta þingi, auk þess sem 1,1 milljarður er ráðgerður til aukningar til málaflokksins. Það leggst síðan ofan á það sem kemur í fjáraukalögum í lok þessa árs til þess að fylgja eftir dómi sem féll í sumar í málaflokki aldraðra.

Virðulegur forseti. Ég kemst ekki lengra vegna þess að tíminn er búinn (Forseti hringir.) en ég er mjög ánægður með þær áherslur sem ríkisstjórnin er með í þessum málaflokkum. Við leggjum áherslu á málefni fjölskyldna, málefni ungs fólks og barnafólks. Það er byrjað að skila árangri, við sjáum það í þessu frumvarpi og munum sjá það áfram.