150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að nefna húsnæðismálin. Hv. þingmaður, sem er formaður velferðarnefndar, verður að taka það með inn í dæmið að ríkið getur komið að málum á fjölbreyttan hátt. Ríkið getur komið að með hagstæðari fjármögnun til almennra leigufélaga. Er það ekki stuðningur? Jú, það er stuðningur þó að hann komi ekki beint fram í fjárlögum. Við vorum að setja af stað nýjan lánaflokk gagnvart landsbyggðinni með hagstæðum lánum. Er það ekki stuðningur við húsnæðismál? Jú, það er sannarlega stuðningur við húsnæðismál. Kemur það fram í fjárlagafrumvarpi? Nei. Það er því gríðarlega mikilvægt að skoða heildarmyndina þegar kemur að húsnæðismálum en festa sig ekki í töludálkunum í fjárlagafrumvarpinu hvað það snertir.

Gagnvart öldruðum og örorkulífeyrisþegum er það þannig, eins og ég sagði í inngangi, að við vorum sammála Landssambandi eldri borgara um að skoða sérstaklega stöðu verst setta hópsins þar. Það gerðum við með sérstakri skýrslu sem skilað var sameiginlega þar sem gert var ráð fyrir sérstökum bótaflokki til að styðja við þá sem minnstu réttindin hefðu í lífeyriskerfinu og væru verst staddir. Í undirbúningi er frumvarp sem lagt verður fram á þessu þingi og mun fara til meðferðar í hv. velferðarnefnd.

Við erum síðan að skoða stóru myndina gagnvart eldri borgurum og það er líka í samstarfi. Fyrsti fundur var haldinn þar í dag og það er mjög ánægjulegt. En þegar menn eru hins vegar að tala um hækkanir og að tengja hækkanir á bótum við hækkanir á almennum vinnumarkaði þá trúi ég því ekki að þingmaðurinn sé að segja að það eigi bæði að vera þannig að þetta sé allt vísitölutengt og síðan eigi að koma hækkanir. Kosturinn við bótakerfið er að það er vísitölutengt og þess vegna hafa bætur verið að hækka eftir vísitölu á hverju ári á meðan laun hafa ekki alltaf hækkað vegna þess að þau eru kjarasamningsbundin. Laun eru ekki vísitölutengd og það er gríðarlega mikilvægt að blanda því ekki saman. Ef við skoðum það hafa lægstu tekjur fyrir fullt starf hækkað minna á undanförnum árum en bætur þegar kemur að prósentum og krónutölum. (Forseti hringir.)

Ég segi: Við megum ekki blanda þessu saman. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við að vísitölutengja bæturnar, þær hækka líka á næsta ári og þarnæsta, (Forseti hringir.) vegna þess að þær eru alltaf vísitölutengdar og hækka alltaf á hverju ári sem launin gera ekki sjálfkrafa af því að þau eru kjarasamningsbundin.