150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:48]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur farið ítarlega yfir hversu mikið er um að vera í húsnæðismálum. Það er vel, húsnæðismálin eru eitt mikilvægasta málefni hverrar fjölskyldu og skipta því miklu máli. Því er mjög ánægjulegt að heyra hversu mikla áherslu hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á húsnæðismálin.

Allar kannanir sýna að flestir vilja búa í sínu eigin húsnæði. Það er bæði visst öryggi í því sem og reisn. Fólk vill oftast eiga sitt eigið húsnæði og vill ekki eiga það á hættu að vera sagt upp leigusamningi eða sjá leiguverðið hækkað fyrirvaralaust.

Tveir hópar eru á svipuðum stað, annars vegar hópurinn sem missti eignir sínar í hruninu og hefur því þurft að vera á leigumarkaði frá bankahruni. Sá hópur hefur átt afar erfitt með að komast inn á markaðinn og fjárfesta aftur í nýju húsnæði. Hann er á leigumarkaði og er með mjög há leiguútgjöld í hverjum einasta mánuði og kemst því ekki í gegnum greiðslumat. Ég þekki ekki hversu stór hópur þetta er en það er alltaf töluvert af fólki sem lýsir reynslu sinni af að hafa ekki komist aftur inn á húsnæðismarkaðinn eftir bankahrunið, eftir að hafa misst húsnæði sitt og það hafi skapað visst óöryggi. Svo er annar hópur sem er með mjög mikla útgjaldabyrði af því að leigugreiðslur hafa hækkað en fær samt ekki greiðslumat fyrir afborgunum af húsnæði með minni afborgun en þetta.