150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er einn af þeim hópum sem við viljum grípa í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Nú eru komin rúmlega tíu ár frá hruni og það er allt of stór hópur sem er enn fastur á leigumarkaði og ekki af því að hann vilji vera þar. Kannanir Íbúðalánasjóðs sem gerðar voru á síðasta ári sýna að þessi hópur vill komast í eigið húsnæði en getur það einfaldlega ekki vegna þess að hann er í fjötrum. Þess vegna kviknaði hugmyndin að þeim eiginfjárlánum sem kynnt voru hér síðasta vor og rötuðu inn í lífskjarasamningana sem ein af aðgerðunum sem ætti að skoða. Hugsunin þar á bak við er að þau lán nái líka til þeirra sem misstu eignir sínar í efnahagshruninu vegna þess að sá hópur er allt of stór.

Ég get ekki farið nákvæmlega yfir útfærsluna á þeim vegna þess að verið er að vinna að henni. Svo mikið get ég þó sagt að í þeirri vinnu hafa menn fundið leiðir til að ná að grípa þennan hóp og ég hlakka mjög til að kynna þetta mál í þinginu og enn meira til þess þegar það getur síðan orðið að lögum. Það er mikilvægt að ná utan um þennan hóp fólks sem er svolítið týndur í samfélaginu. Þetta eru ekki endilega einstakar fjölskyldur á allra lægstu laununum. Þetta er alls staðar á skalanum, getur verið allt frá lægstu tíund og upp fyrir miðjan skala. Menn eru bara læstir inni af því að þeir komast ekki út á markaðinn, eru á svörtum lista. Þetta er hópur sem við ætlum okkur að ná utan um.