150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Mig langar til að koma að öðru máli og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann gæti jafnvel hjálpað til í öðrum málaflokki. Við sjáum fréttir um að slegið sé aðsóknarmet að Landspítalanum og víða annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Er það ekki skilningur ráðherrans að í þeim fjölda verkefna sem unnið er að á vegum félagsmálaráðuneytisins geti einmitt falist aðstoð til heilbrigðiskerfisins í svokallaðri 1. stigs þjónustu þannig að ekki þurfi að vera svona mörg skref að lausnum, t.d. hvað varðar opin úrræði eins og í geðheilbrigðismálum og í barnaverndarmálum þar sem hægt verði að komast að rót vandans, sjá hvar upptökin eru og nota þá vægari og ódýrari aðferðir strax í upphafi svo að við þurfum ekki að sjá aukna aðsókn að heilbrigðiskerfinu? Er það ekki gríðarlega mikilvægt? Með því að vinna þvert á málaflokka í því að finna rót vandans og sameinast um að taka á vandamálinu þar strax getum við nýtt fjármuni ríkisins betur í fleiri góð og mikilvæg verkefni til að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda.