150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Sú skýrsla sem hann vitnar til og unnin var fyrir Velferðarvaktina af Kolbeini Stefánssyni var mjög góð og það er mjög margt í henni sem við höfum tekið með okkur inn í þá vinnu sem er í gangi. Þar var t.d. talað um mikilvægi þess að endurreisa fæðingarorlofskerfið. Það var eitt af þeim atriðum sem hann nefndi sérstaklega í sinni skýrslu. Þar höfum við bætt inn fjármunum, erum að lengja fæðingarorlof og erum núna að ráðast í heildarendurskoðun fæðingarorlofslaga og ætlum að kynna hana á næsta ári. Þar ætlum við að skoða sérstaklega þessa hópa og enn frekar en búið er að gera.

Við höfum gripið til ákveðinna aðgerða í barnabótakerfinu þegar kemur að þessum hópi. Við erum líka með í vinnslu ákveðna þætti í húsnæðismálunum og auðvitað eru t.d. þær 600 íbúðir sem ég nefndi áðan í almenna íbúðakerfinu, 600 íbúðir á næsta ári, 600 íbúðir á þarnæsta ári, 600 íbúðir á síðasta ári, allar byggðar með það að markmiði að höfða sérstaklega til þess hóps einstaklinga og fjölskyldna sem býr við verstar tekjur og er m.a. barnafjölskyldur. Við erum líka að skoða frekari breytingar í húsnæðismálum til að fara í enn róttækari aðgerðir sérstaklega gagnvart þessum hópi. Það er ekki tímabært að setja þær fram að svo stöddu en við ætlum okkur að ná utan um þennan hóp. Skýrsla Kolbeins Stefánssonar er alger biblía fyrir okkur til að grípa þessi börn vegna þess að það er akkúrat hópurinn sem ég ræddi hér áðan, m.a. í andsvari við hv. þm. Vilhjálm Árnason, sem við þurfum að ná fyrr, sem við þurfum að ná snemma, áður en hann leiðist af braut síðar meir (Forseti hringir.) og við ætlum okkur að gera það. En við þurfum að vanda til verka.