150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Húsnæðismálin? Þær aðgerðir koma svolítið seinna og ná yfir nokkra aðila o.s.frv. Í stóra samhenginu erum við að tala um fátæk börn á meðan þau eru fátæk, líða skort og líða fyrir það og þau geta liðið fyrir það fyrir lífstíð. Þá er einmitt mikilvæg, eins og ráðherra lýsti, hin snemmtæka íhlutun, að það sé snemma stigið inn og gripið inn í.

Þá er það spurning varðandi öryrkja — hvað þeir eru að fá. Það er talað um það sérstaklega í skýrslunni að staða barna öryrkja sé á pari við stöðu barna einstæðra, þau séu verst sett, ég tala nú ekki um ef maður er bæði einstæður og öryrki, þá ertu í verst stadda hópnum. Það eru börn þessara einstaklinga sem eru hvað verst stödd þegar kemur að fátækt. Hækkun á grunnbótum öryrkja er í kringum 8.000 kr. Hvað annað? Er ráðherra með einhverja mynd af því? Hvað er þetta stór hópur? Ef við horfum á þau börn sem búa við fátækt, hvað er þetta stór hópur? Hvar er hann? Hvar er best að nýta fjármagnið? Hvað þarf til þess að hífa t.d. öll börn upp úr þessu? Þá erum við komin í 100%. Hvað munu þessar tillögur hífa mörg af þessum börnum upp úr fátækt? Eru það 8%, 10% eða 20%? Hefur ráðherra hugmynd um það?

Ef menn segja að það verði sérstaklega hugað að stöðu barna sem búa við fátækt því að þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins myndi maður halda að það verði að vera til skýr mynd af því hver þessi hópur sé. Ef við ætlum að huga sérstaklega að þeim þurfum við að vita hver þau eru og við þurfum að vita hvað þarf til þess að hífa þau upp úr fátæktinni. Er ráðherra með hugmynd um það? Getur hann sagt okkur hvort það séu 10–20% eða hvað í þessu fjárlagafrumvarpi muni hafa áhrif til þess að hífa börn upp úr fátækt og þá hversu mörg?