150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans á málaflokknum áðan þótt tíminn hafi verið allt of knappur eins og ráðherrann kom sjálfur að. Ég ætla því kannski að einbeita mér að fáum atriðum frekar en að reyna að skauta yfir allt málasviðið. Eitt af þeim málum sem hefur verið mikið rætt og margir talað um á þessu kjörtímabili eru þær skerðingar sem örorkulífeyrisþegar hafa fengið á sjálfsöflunartekjur, sumir kalla það króna á móti krónu skerðingar, og ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að draga úr á næstunni.

Mig langar aðeins að heyra í ráðherra um hvort hann sjái fram á að það verði frekari breytingar á þeim skerðingum eins og þær eru núna, þ.e. þar sem farið er í 65 aura af krónunni, hvar það mál stendur, og hvort hann hafi væntingar um að það breytist. Síðan er spurning, sem ég veit ekki hvort ráðherra getur svarað, sem snýr að því sem ráðherrann kom raunar inn á í ræðu sinni, að mikið af þeim verkefnum sem koma fram frá ráðuneyti hæstv. ráðherra á komandi þingvetri snúa að málum tengdum hinum svokölluðu lífskjarasamningum. Er ráðuneytið eða ráðherrann með yfirlit yfir hversu stór hluti af þeim breytingum á fjárframlögum sem eru í frumvarpinu tengist lífskjarasamningunum beint eða óbeint?