150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina. Ef súmmera má hana upp í stuttu máli þá er ráðherra fullur góðs ásetnings og hefur viðhaft víðtækt og mikið samráð við fjölda aðila. Ég veit þó að margir þeirra sem samráð hefur verið haft við, mismikið þó stundum, kannski sér í lagi fulltrúar örorkulífeyrisþega, eru orðnir æði óþreyjufullir eftir efndum. Ég staldra við, sem kemur hæstv. ráðherra ekki sérlega á óvart, áformin í örorkulífeyrismálum þar sem ég veit, eftir nýleg samtöl við forsvarsmenn öryrkja, að lítið hefur frést af aðgerðum og áformum.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið standa eftir 1.100 millj. kr. sem ætlað er að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir lýsti hér fyrr í kvöld, þ.e. að með 3,5% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum örorku- og ellilífeyrisþega sé í raun verið að láta þennan hóp greiða fyrir mögulegar umbætur sjálfan. Það er alveg ljóst að þessi hópur er þá að dragast verulega aftur úr öðrum lágtekjuhópum í samfélaginu. Ég verð að viðurkenna, hæstv. ráðherra, að ég sé ekki hvaða grundvallarbreytingar er hægt að gera á örorkulífeyriskerfinu, t.d. varðandi krónu á móti krónu skerðinguna, fyrir 1.100 millj. kr.

Nú er grundvallarvandinn sá, og ástæðan fyrir því að svo brýnt er að ráðast í uppstokkun á þessu kerfi, að við skerum okkur úr í þróun örorku frá öðrum Norðurlöndum. Önnur Norðurlönd hafa meira og minna náð tökum á þessari þróun. Þar hefur tekist að snúa þróuninni við, snúa fólki aftur til vinnu sem á annað borð á kost á því. En hjá okkur er örorkutíðni enn vaxandi. Það er því mjög brýnt að ná utan um þær kerfisbreytingar sem nauðsynlegar eru. Ég spyr: Treystir hæstv. ráðherra sér til þeirra breytinga fyrir 1.100 millj. kr.?