150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:20]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að ég og hv. þingmaður deilum sömu sýn þegar kemur að fjölgun fólks sem fer á örorkulífeyri. Hv. þingmaður talar um að önnur lönd hafi náð miklu betri árangri en við. Þær tillögur sem við miðuðum við hér varðandi þessi mál voru að búa til nýja flokka sem hétu m.a. endurhæfingargreiðslur, virknigreiðslur, sjúkragreiðslur og hver og einn þessara flokka fæli í sér að þú værir í ákveðnum úrræðum. Það er það sem hefur gerst á öðrum Norðurlöndum, einstaklingarnir eru í þeim flokkum og þar með fjölgar ekki þeim sem fara á örorkulífeyri. Það þarf að skoða þetta allt sem eina heild.

Við myndum ná gríðarlegum árangri við að draga úr nýgengi örorku ef við myndum innleiða þessa bótaflokka, fyrstu árin á eftir, ef við myndum bara telja hve margir færu í flokkinn nýgengi örorku. Það þarf að skoða þetta í því sambandi. Við erum á hverju ári með háar fjárhæðir í fjárlögum vegna nýgengi örorku. Það væri mjög jákvætt ef við gætum nýtt þá fjármuni til að tryggja fólki framfærslu og aðstoða það við að fara í önnur úrræði til að það endi ekki á örorkulífeyri. Það er innbyggt í kerfið, miðað við áætlanir ríkissjóðs núna, miðað við fjölgun á næstu árum, að við getum náð í fjármagn til að gera þarna breytingar, bara ef við náum að byrja að gera breytinguna. Það er það sem við þurfum að ná að gera, að byrja að stíga fyrsta skrefið.

Varðandi hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi fagna ég því auðvitað að hv. þingmaður, bæði varðandi örorkumálin og fæðingarorlofið, sé hvatamaður þessa. Ríkisstjórnin er búin að hækka greiðslurnar mjög mikið frá því sem var. Ríkisstjórnin er að lengja fæðingarorlofið, er að fara með það upp í 12 mánuði. Það kostar fjármagn. Það kostar fjármagn að vísitölutengja upphæðir og ég fagna því að hv. þingmaður sé (Forseti hringir.) í liði með ríkisstjórninni í því en sé þá ekki í næstu ræðu að gagnrýna útþenslu báknsins, að hér sé verið að eyða fjármunum o.s.frv. Ég hef líka heyrt (Forseti hringir.) þær ræður hjá hv. þingmanni í tengslum við umræður um ríkisfjármál. (Gripið fram í.)