150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjárlögin og hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur farið yfir margt í kvöld. En ég verð því miður að byrja á því að leiðrétta hæstv. ráðherra, hann fór með rangt mál hér í pontu fyrr í kvöld. Hann sagði að hækka skuli samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það er rangt.

Í 69. gr. í lögum um almannatryggingar stendur skýrt um bætur almannatrygginga, með leyfi forseta:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Ég segi fyrir mitt leyti: Hvernig í ósköpunum — þetta kemst ekki nálægt mínum skilningi í reikningi — getur 3,5% neysluvísitala verið betri en 5,7% launavísitala? Hvernig í ósköpunum geta 3% á síðasta ári, við síðustu áramót, verið betri en lífskjarasamningar sem voru upp á mun hærri prósentur, á annan tug prósenta?

Hvers vegna förum við ekki eftir þessari einföldu 69. gr. í lögunum sem við höfum samþykkt hér á þingi? Það skal taka mið af launaþróun, þó þannig að bætur hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það stendur skýrt í lögunum. Ef farið væri eftir þessu þá væri það mun betra fyrir öryrkjana í dag, þá væru þeir ekki alltaf skildir eftir. En það á að skilja þá enn eina ferðina eftir.

Hækkanir dynja á. Það á að lækka tekjuskattsprósentustigið með annarri hendinni en með hinni hendinni að lækka persónuafsláttinn. Þið verðið að fara að taka ákvörðun um þetta. Það á ekki að fara svona með þetta fólk, það á að segja því sannleikann og koma rétt fram við það og fara eftir lögum, því að þetta skal hækka samkvæmt launaþróun.