150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég býð hann velkominn. Ég ætla að sýna honum ljósið. Hann kemur bara og styður frumvarp okkar um að öryrkjum verði leyft að fara út á vinnumarkað í tvö ár og vinna. Allir græða. Öryrkjarnir fá meiri tekjur, ríkið fær skatttekjur. Og það merkilega er að þetta kostar ríkið ekkert meira vegna þess að það þarf hvort sem er að borga örorkubæturnar eða lífeyrisbætur — eða bætur, mér finnst það óþolandi orð, ég segi lífeyri eða lífeyrislaun. Þetta frumvarp erum við búin að leggja fram í þinginu. Þetta gerðu Svíarnir. Það skilaði því að rúm 30% skiluðu sér aldrei inn í kerfið aftur. Þetta er frábær tillaga og ég vona að ráðherra styðji hana.

Mig langar að benda á annað sem mér finnst sorglegt í þessu. Ég fór inn á vef Íbúðalánasjóðs og þar eru vextir 4,2%. Við það að setjast á þing stórhækkuðu launin mín. Ég var áður á lífeyrissjóðslaunum og örorkubótum eða lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og ég var með 4,5% vexti á Íbúðalánasjóðsláni. Við það að fara að vinna græddi ég alveg svakalega vegna þess að ég komst inn í lífeyrissjóðakerfið og borga í dag 1,9% vexti. Þetta er svakaleg kjarabót og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum hafa þeir verst settu ekki þetta tækifæri gagnvart Íbúðalánasjóði? Ef einhver þyrfti á því að halda væru það þeir, miklu meira en ég hef þörf á í dag. Þess vegna spyr ég: Af hverju eru þessir rosalega háu vextir á lánum Íbúðalánasjóðs?