150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Hið fræðilega svar við því af hverju svona háir vextir eru hjá Íbúðalánasjóði er að þeir lánaflokkar sem sjóðurinn er með miða við síðustu útgáfu skuldabréfa sem sjóðurinn gerði og á hvaða vöxtum þau voru. Vegna þess að mjög margir eru að greiða upp lán sín, eins og hv. þingmaður, þá hefur sjóðurinn ekki þurft að fara í slík útboð. Lög miða að því að þetta sé með þeim hætti. Hins vegar erum við að gera breytingar til að geta stutt við fólk á húsnæðismarkaði sem vill kaupa sína eign og tekjulægstu hópana og nýtist m.a. örorkulífeyrisþegum, eins og hv. þingmanni áður en hann komst í þá stöðu sem hann lýsti í dæmi sínu áðan.

Hluti af lífskjarasamningunum er að skoða sérstök eiginfjárlán. Við erum að skoða hvernig hægt er að styðja við þá sem þarna eru og vilja komast í eigið húsnæði. Það er einmitt það sem við höfum bent á í sambandi við lífskjarasamningana, þó að þeir hafi verið gerðir í tengslum við vinnumarkaðinn og í tengslum við aðila vinnumarkaðar, þá eru fjölmargir þættir þar, eins og ég hef rakið fyrr í umræðunni, sem nýtast líka örorkulífeyrisþegum og öðrum lífeyrisþegum — það er í húsnæðismálunum, t.d. gagnvart leigumarkaðnum, það sem við ætlum að gera gagnvart fyrstu kaupendum og þeim sem eru tekjulágir. Það er líka í skattamálunum, það er í barnabótunum og það er í fæðingarorlofinu.

Í lífskjarasamningunum er fólgin mikil kjarabót, ekki bara fyrir vinnandi fólk, og húsnæðismálin eru einn hluti þeirra. Þess vegna vonast ég til að hv. þingmaður, sem situr í velferðarnefnd, taki vel í þau frumvörp sem munu koma til nefndar í vetur og öll miða þau að því að ná utan um og gera meira fyrir þann hóp fólks sem hv. þingmaður berst fyrir af lífi og sál og ég virði það mjög.