150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að hafa orð á því undir lok þessarar umræðu hversu mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma, á nokkrum árum, á samtalinu hér í þinginu um ríkisfjármálin, um opinberu fjármálin almennt. Það er ekkert óvænt í því eftir að þessar breytingar urðu að lögum um meðferð opinberra fjármála. Lögum um þau mál var breytt í grundvallaratriðum og við höfum rætt það í tengslum við fjármálaáætlun og fjármálastefnu nú síðast í sumar að við vildum færa öll þessi mál til betra horfs. Ég myndi vilja halda því til haga hér undir lok umræðunnar hversu mikið grundvallaratriði það er að opinberu fjármálin tali saman við stöðuna á vinnumarkaði annars vegar og framkvæmd peningamálastefnunnar hins vegar. Það er svo langt frá því að vera sjálfsagt að það gerist, eins og er að gerast um þessar mundir, að þessir grundvallarþættir leggist á sömu sveif. Við sjáum það í opinberu fjármálunum, ríkisfjármálunum, með því að við gefum eftir afkomumarkmiðin á sama tíma og vextir Seðlabankans eru að lækka og gerðir eru langtímasamningar á vinnumarkaði.

Að þessu sögðu finnst mér líka athyglisvert hversu breið almenn umræða hefur farið fram hér um efnahagsmálin, ólíkt því sem stundum var áður að við ræddum mest um einstakar fjárveitingar og jafnvel til einstakra ríkisstofnana og komumst lítið upp úr sporunum með breiðu umræðuna um það hvert stefndi, t.d. með opinberar fjárfestingar. Mér finnst það vera mikið batamerki og það er nauðsynlegt að sú umræða fari fram hér, í tengslum við umræðu um ríkisfjármál, hvort við séum að stilla þessari hagrænu skiptingu ríkisfjármálanna rétt hverju sinni.

Það má sjá í þessu fjárlagafrumvarpi að við höfum mjög verið að auka við tilfærslur á undanförnum árum. Það sést þegar langtímaþróun er skoðuð og með því að við erum að auka mjög bótagreiðslur úr almannatryggingum þessi misserin, sérstaklega eftir 2016 breytinguna sem gerð var á ellilífeyrismálum. Með þeirri útgjaldaaukningu sem orðið hefur til heilbrigðismála, sem er langmesta aukningin í einn málaflokk, hefur nokkuð þrengt að getu okkar, og það er alveg rétt sem fram hefur komið í umræðunni, til þess að bæta í innviðafjárfestingu á sama tíma og atvinnulífið er hlutfallslega aðeins að draga úr henni. Við erum þó í vexti með fjárfestingarstigið. Það birtist víða. Það birtist í ýmsum byggingarframkvæmdum en ekki síður í umbótum í samgöngumálum. En við þurfum að halda þessu samtali áfram og spyrja okkur hvernig við getum mögulega aukið enn frekar við fjárfestingarstigið.

Ég verð að taka undir með þeim sem lýsa mikilvægi þess að ríkið sé að fjárfesta til framtíðar til að bæta lífskjörin í landinu og skapa betri skilyrði fyrir atvinnulíf og fyrir samgöngur sem eru snar þáttur í blómlegu mannlífi um allt land. Greiðar samgöngur eru lykilþáttur fyrir landsbyggðina en ekkert síður hér á höfuðborgarsvæðinu, mjög mikilvægur þáttur sem getur stýrt miklu um lífsgæði fólks sem þarf að ferðast til og frá vinnu á hverjum degi og reka ýmis erindi. En innviðafjárfestingar snúast auðvitað um margt annað, þær snúist um að tryggja samkeppnishæfni okkar Íslendinga, samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Ég tel að langstærsta tækifæri okkar til þess að gera betur á þessu sviði sé að losa um fjármagn sem liggur í fjármálafyrirtækjum. Það er ágætisbyrjun að átta sig á því að við Íslendingar erum með langhæsta hlutfall af landsframleiðslu bundið í fjármálastarfsemi af Evrópuríkjum. Við erum sömuleiðis með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem við vorum á sínum tíma sammála um að hugsaðir væru til tiltölulega skamms tíma. Allir voru sammála um að það þyrfti að vanda sig við að losa aftur um eignarhaldið en hvort sem litið er til Landsbankans, sem við tókum í raun yfir með neyðarlögunum, eða til Íslandsbanka, sem var hluti af stöðugleikaframlögum við afnám hafta, var í þessum tilvikum ekki gert ráð fyrir því að við myndum binda þetta mikla fjármuni til langs tíma í fjármálastarfsemi. Þarna liggur tækifæri sem við munum áfram þurfa að skoða til að bæta í fjárfestingar og styrkja þannig stöðu okkar Íslendinga í samkeppni þjóða.

Mig langar sömuleiðis hér undir lok umræðunnar að fagna því hvernig við höfum reynt að þróa áfram þetta samtal með fyrirkomulagi umræðunnar. Það er kannski dálítið sérstakt að jafn stórt mál og fjárlagafrumvarpið er fái hálfan ræðutíma á við venjuleg frumvörp en þetta hefur samt sem áður gefið færi á snarpari skoðanaskiptum. Nú í lok annars dags umræðunnar stendur það kannski upp úr að hér áður fyrr voru fluttar færri lengri ræður en u.þ.b. sami tími fer í heildarumræðuna. Með þessu fyrirkomulagi komast fleiri að. Allir ráðherrar eru virkjaðir til umræðunnar og fleiri þingmenn, sýnist mér, taka almennt þátt í umræðunni. Það held ég að sé mjög gott, það er mjög góð þróun.

Að þessu sinni kynntum við fjárlagafrumvarpið óvenjusnemma fyrir þjóðinni og þinginu. Ég vonast til þess að það hafi hjálpað til við að dýpka umræðuna í þinginu fyrstu dagana. Lengi hefur verið kallað eftir því að málið lægi fyrir í einhverja sólarhringa áður en umræðan hæfist og við því brugðumst við með því að kynna fjárlagafrumvarpið á föstudegi á meðan umræðan hefst á fimmtudeginum í vikunni á eftir. Þetta er lengsti undirbúningstími sem þingið hefur nokkru sinni fengið til að undirbyggja málefnalega og djúpa umræðu. Ég vænti þess að þingið, og fjármálaráðuneytið í framhaldinu, meti hvernig til hafi tekist og að við tökum þráðinn mögulega aftur upp að ári. Vonandi verðum við aftur í færum til að birta frumvarpið þetta snemma og ég lýsi yfir miklum vilja af okkar hálfu til að mæta kröfunni um gagnsæi og nauðsynlegan undirbúningstíma fyrir umræðuna. En þrátt fyrir að menn hafi þennan undirbúningstíma er einfaldlega í svo mörg horn að líta, þegar svona breitt og umfangsmikið mál er undir, að jafnvel sá tími dugar ekki til að glöggva sig á öllu. Þess vegna hefur þessi síðari dagur umræðunnar verið gagnlegur til að fara nánar ofan í einstaka efnisþætti með fagráðherrum. Mér sýnist að það hafi tekist vel.

Við munum áfram skiptast á skoðunum um hvort nóg sé að gert, hvernig skattstefnu eigi að reka hér á landi, hvort við séum að fara nægilega vel með fjármunina sem eru á útgjaldahliðinni, hvort við ættum að forgangsraða þeim með öðrum hætti, hvernig við getum betur veitt innsýn inn í það sem er að gerast. Ég tek eitt lítið dæmi hér: Eftir að fjárlagafrumvarpið var birt rafrænt kom fram lítil reiknivél, sem starfsmaður í fjármálaráðuneytinu átti frumkvæði að að setja saman, en margir hafa notast við hana til þess að skilja áhrif tekjuskattsfrumvarpsins sem er fylgifrumvarp fjárlagafrumvarpsins. Ég hef fundið mjög sterkt fyrir því að einföld skilvirk framsetning er mjög vel þegin í stórum flóknum málum. Þar held ég að framkvæmdarvaldið mætti á mörgum sviðum gera töluvert mikið betur. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þætti sem ég fór yfir hér í framsöguræðu minni eða hef komið inn á í andsvörum og öðrum ræðuhöldum í gær.

Ég þakka fyrir það hversu málefnalega og yfirvegað þessi umræða hefur farið fram. Ég held að hún muni gagnast fyrir framhaldið.