150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er víða komið við í svona stuttri samantekt á helstu áherslum Samfylkingarinnar í umræðunni. Mig langar til að grípa nokkra punkta. Í fyrsta lagi varðandi Landspítalann. Það verður auðvitað ekkert horft fram hjá því að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa útgjöld til heilbrigðismála, og langmest til Landspítalans, verið stóraukin. Á föstu verðlagi hafa útgjöld til heilbrigðismála hækkað um rétt um 40 milljarða á föstu verðlagi, á ári sem sagt. Á næsta ári að raungildi eru útgjöldin um 40 milljörðum hærri en árið sem ríkisstjórnin tók við. Verulegur hluti af því hefur runnið til þess að treysta rekstur Landspítalans. Það er mikið áhyggjuefni að Landspítalinn sé rekinn með halla, eins og komið var inn á, þrátt fyrir þetta og er verið að grípa til einhvers konar skipulagsbreytinga.

En sem fjármálaráðherra, og hér eru margir í fjárlaganefnd viðstaddir umræðuna, hlýt ég að spyrja: Þykir mönnum eðlilegt og sjálfsagt að eftir að Alþingi hefur ákveðið hvaða fjárheimildir renna til einstakra stofnana komi menn inn í umræðunni og segi: Heyrðu, hér er bara margra milljarða halli, við verðum að bæta í? Þetta er grundvallaratriði í lögum um opinber fjármál. Það er grundvallaratriði í allri framkvæmd opinberra fjármála, ríkisfjármálunum sérstaklega, að menn eigi að halda sig við fjárheimildir eins og þær hafa verið afgreiddar héðan af Alþingi. Ef einhver önnur skilaboð koma frá þinginu eru þau ekki aðeins til Landspítalans heldur til allra ríkisstofnana, að það skipti ekki máli að fara að fjárlögunum.

Varðandi sölu bankanna get ég auðvitað ekki haft neinar yfirlýsingar um hvort það muni takast að selja banka. En ef tillaga kemur frá Bankasýslunni og við komum síðan með málið inn til þingsins þá fer af stað ferli a.m.k. og það er það sem ég vil að gerist. Það ræðst svo á endanum af markaðsaðstæðum og öðrum þáttum sem við stjórnum ekki öllum hvernig þau áform ganga eftir.