150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef við rifjum aðeins upp umræðuna fyrir ári síðan þegar við vorum að ræða stöðu Landspítalans var alveg ljóst þegar gengið var frá fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 að það yrði vandi á ferðum við rekstur spítalans. Það var algjörlega ljóst og margsagt í þessum sal. En á meðan hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin segjast vera að leggja rosalega mikla áherslu á heilbrigðiskerfið þá er skorið niður í heilbrigðiskerfinu og ekki síst til Landspítalans. Það er arfavitlaust að tala um milljarðana sem fara í byggingu á nýjum spítala, það er ekki hægt að tala um það sem betri þjónustu við sjúklinga. Það er bara ekki þannig. Landspítalinn stendur frammi fyrir mjög miklum vanda. Ef að líkum lætur fer spítalinn með 4 milljarða kr. halla inn á næsta ár og þarf að skera niður um þá milljarða ef ekkert verður að gert og aðhaldsaðgerðirnar sem Landspítalinn er að fara í ár eru þvílíkar. Það er aðhald í nýráðningum. Það er sérstök aðhaldskrafa til stoðsviða og deilda. Það er aðhald í lyfjakostnaði. Þau ætla að draga úr rannsóknum og myndgreiningu. Það er aðhald í vöru-, tækja- og hugbúnaðarkaupum og þau ætla að fella niður vaktaálagsauka. Vandi Landspítalans sem reiknast upp á tæpa 1,5 milljarða á ári er vegna vanreiknaðra launabóta í kjölfar kjarasamninga en um reikninginn virðast ekki allir sammála. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Eru enn deilur um launamál á milli spítalans og fjármálaráðuneytisins eða er komin niðurstaða í mat á þeim launabótum sem Landspítalinn telur sig eiga að fá og hefur kallað eftir leiðréttingu á?