150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rennum létt yfir þrjú atriði í lok umræðunnar. Í fyrsta lagi er það Landspítalinn, það sem ég hef bent á í umræðunni er að upphæðirnar sem við fáum í fjárlögum eru óútskýrðar, eru hálfgerð ágiskun. Við vitum ekki hvort þær séu í raun og veru réttar miðað við þjónustukröfur eða skilvirkni. Hver er að segja að Landspítalinn sé í rekstrarvanda en ekki í fjárþurftarvanda miðað við þjónustukröfur? Við getum ekki svarað því, við fáum aldrei þær upplýsingar. Við eigum bara að skrifa undir þá upphæð sem kemur frá fjármálaráðuneytinu án þess að það sé eitthvað nánar útskýrt af hverju þetta er rétt tala miðað við allar aðrar forsendur.

Síðan er það losun á eignarhaldi bankanna. Það er eiginlega áminning sem ég myndi vilja koma á framfæri: Ekki fyrr en skýrslan kemur út um hvernig okkur hefur tekist að framfylgja rannsóknarskýrslu Alþingis. Við þurfum að skoða stöðuna og vita hvort Fjármálaeftirlitið og fleira er nógu stöndugt til að koma og taka við því eftirliti sem þarf að fylgja miðað við banka og markaði. Það gekk ekki svo rosalega vel síðast. Við þurfum að vera viss um að við séum búin að uppfylla þær kröfur, miðað við þau mistök sem við gerðum síðast og hvernig þróunin hefur verið á þessum mörkuðum síðan.

Tökum þessi atriði núna því að ég er með eitt orð á blaði fyrir seinni umferðina sem ég hlakka til að tala um.