150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar stórmál sem hv. þingmaður kemur inn á sem er hvernig við eigum að kostnaðarmeta einstaka rekstrarþætti í heilbrigðismálum. Lengi hefur verið unnið að því að vinna með eins konar samræmda kostnaðargreiningu þar sem menn hafa brotið niður á einstaka aðgerðaliði í spítalaþjónustu, svo dæmi sé tekið. Ef ég man rétt er þetta kallað DRG-greining, nákvæmlega hvað er eðlilegt að greitt sé fyrir unnin verk. Ef við klárum innleiðingu þessa fyrirkomulags erum við farin að umbuna fyrir afköst. Það tel ég að sé mjög eftirsóknarvert. En þarna finnst mér að sé verðugt verkefni fyrir fjárlaganefnd og eftir atvikum velferðarnefnd Alþingis að taka til frekari skoðunar og leggja okkur lið, framkvæmdarvaldinu, við að koma auga á veikleika sem kunna að vera í þessu regluverki og í framkvæmdinni allri hjá okkur.

Mig grunar að við gætum nýtt fjármunina betur. Það er þannig sem mér líður með þetta vegna þess að aukningin hefur orðið svo gríðarleg. Það er flókið mál að stýra jafn risastórri stofnun og Landspítalinn er. Auðvitað trúi ég því að þar séu allir að vinna eftir bestu getu. En það þarf stöðugt aðhald með nýtingu fjármunanna.

Varðandi bankana heyri ég það sem hv. þingmaður segir. Ég ekki sammála því að þessa úttekt þurfi á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en hins vegar er mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um það hvernig regluverk fjármálamarkaðanna hefur breyst. Komið hafa út skýrslur um það sérstaklega og þar er niðurstaðan mjög einföld. Við erum bara í allt öðrum heimi með allt regluverk fjármálakerfisins, eins og reyndar á við um alla Evrópu. Ef menn ætla að reyna að fyrirbyggja það sem gerðist hér árið 2008, ef það er meginmarkmiðið, þá (Forseti hringir.) held ég að við höfum gert þær nauðsynlegu lagabreytingar og reyndar eru fleiri frumvörp á þingmálaskrá sem munu hjálpa til í því efni.