150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt orð á seinna blaðinu: Hvatning. Hvatning til ráðuneytisins að vinna einmitt með þinginu til þess að ná að klára innleiðingu laga um opinber fjármál. Það er einfaldlega þannig. Það vantar innleiðingaráætlun, komum og tökum hana saman. Komum með tillögur að því hvernig á að klára, hvort það sé hægt, hvort það sé gerlegt, vinna það með þinginu, með kynningu fyrir þinginu. Byrjum á þeim atriðum þar sem þetta er til. DRG-greiningin er til, Landspítalinn hefur verið að nota hana í þó nokkurn tíma meira að segja.

Á sumum málefnasviðum eru í rauninni ekki rosalega miklar breytingar á hverju ári, t.d. á dómstólamálefnasviðinu. Það er mjög lítið um stefnumótun og viðbótarverkefni þar á milli ára, smá upplýsingatækni kannski, endurnýjun tækjabúnaðar eða gagnagrunna sem er mjög auðvelt að kostnaðargreina og ábatameta. Þá er hægt að fara jafnvel inn í rammann þar og þar eru upplýsingar til margra ára eða áratuga um það hvernig rekstrarkostnaður hefur verið og hvert kostnaðarmatið er á því málasviði. Byrjið þar sem auðveldu atriðin eru, þar sem gögn liggja fyrir og er auðveldlega hægt að prenta út hvernig það lítur út. Takið líka aðeins á stærri verkefnum. Þau þurfa ekki að vera hárnákvæm. Þetta er u.þ.b. kostnaðurinn, það er u.þ.b. allt kostnaðarmetið, annars væri ekki hægt að koma með tillögur að upphæðum fyrir fjárlög. Ábatagreiningin er erfiðari, komið samt með u.þ.b. ábatagreiningu í orðum ef ekki er hægt að koma með nákvæma tölu, kannski er hún á bilinu 10–50 milljónir eða í kringum 100 milljónir. Það þarf ekki að vera nákvæmt til að byrja með. Við lærum á því að gera það en við lærum ekkert ef við gerum ekki neitt. Byrjum á þessu og gerum betur.