150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra þessa lokaframsögu í 1. umr. Ég tek undir með ráðherra, margt í þessari umræðu er að þróast til betri vegar. Ég er sérstakur áhugamaður um efnahagshlið fjárlaganna og ég fagna því að það er einmitt meiri umræða núna um efnahagslega umgjörð fjárlaga en oft áður. Ég hef gagnrýnt of bjartsýnar forsendur þessara fjárlaga, reyndar líkt og hefur verið vandamál síðustu 12–18 mánuði í ríkisfjármálaáætlunum. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona að efnahagsforsendur verði líkt og gert er ráð fyrir í hagspá Hagstofunnar en óttast að sú verði ekki raunin þó að það sé heldur enginn heimsendir þó að hagkerfið verði aðeins kaldara en þar er gert ráð fyrir.

Hagkerfið stendur að mörgu leyti vel en það er einmitt á þessum tímapunkti sem við þurfum að huga að því sem hæstv. ráðherra kom inn á, að við aukum ekki útgjöld um of, að við förum ekki fram með meira kappi en forsjá í útgjaldaaukningunni. Þar vantar okkur mjög mikið upp á hvernig við t.d. mælum árangur okkar. Við erum með allt of ófullkomna mælikvarða í fjárlögunum og í eftirfylgni fjárlaga hvað varðar bæði að hverju er stefnt með auknum fjárveitingum en ekki síður og enn mikilvægar hvað við fáum fyrir þá fjármuni sem þegar eru í hinum opinbera rekstri. Það kemur kannski hvað skýrast fram í heilbrigðiskerfinu, í þeirri miklu útgjaldaaukningu sem þar hefur orðið, að þegar við horfum á þróun biðlista, þróun þjónustunnar við borgara þessa lands, sjáum við ekki þann árangur sem við ættum að sjá miðað við þá miklu útgjaldaaukningu sem þar hefur orðið.

Ég hefði viljað sjá aðrar áherslur í fjárlagafrumvarpinu. Ég hefði viljað sjá mun meira sett í fjárfestingarnar, en ég fagna orðum hæstv. ráðherra þegar kemur að umræðu um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Ég vona að við sjáum þess merki á þessu þingi að fyrstu skrefin verði stigin. (Forseti hringir.) Ég held að við getum nýtt þá fjármuni mun betur í uppbyggingu innviða en áframhaldandi eignarhald í svo miklum mæli.