150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek aftur undir með hv. þingmanni. Ég tel að það væri skynsamleg ráðstöfun að losa um eignarhald í fjármálafyrirtækjum og færa yfir í annars konar uppbyggingu í landinu. Varðandi hagsveifluleiðréttu afkomuna sýnist mér að sú leið sé sums staðar farin að miða við hagsveifluleiðrétta afkomu, jafnvel yfir lengra tímabil. Við höfum rætt þetta áður og þetta hefur verið tekið til skoðunar, var tekið til skoðunar áður en lög um opinber fjármál voru sett, en það er svo sem með þessa hugmynd eins og margar aðrar að þær eru ekki allar án galla.

Ég nefndi áðan að við værum enn að fá tölur um það hver hagvöxtur hefði verið í upphafi árs. Þær tölur breytast mögulega áfram og þegar menn ætla að miða afkomuna við hagsveifluleiðréttar tölur eru menn ekki alltaf á alveg kletttraustum grunni. Það er eitt af því sem má hafa í huga í þessu.

Ég man eftir því fyrir nokkrum misserum að hafa setið á fundum, annars vegar með Seðlabankanum sem taldi þá að hagsveifluleiðrétt værum við einhvers staðar við núllið, jafnvel í neikvæðri afkomu, en sama dag sat ég með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sagði: Nei, okkur sýnist að hagsveifluleiðrétt séum við réttum megin við núllið. Ég nefni þetta bara sem dæmi um að þetta eru ekki mikil nákvæmnisvísindi hverjar hagtölurnar verða nákvæmlega á næsta ári. Þetta hefur verið stór hluti umræðunnar hér, a.m.k. á milli mín og hv. þingmanns, og ég er sannarlega ekki að forða mér frá frekari umræðu um þetta. Það er risastórt mál að við höldum áfram að þróa þessar mælistikur sem við ætlum að nota til að stilla útgjaldastig, (Forseti hringir.)tekjuáætlun og aðrar stórar ákvarðanir okkar rétt af.