150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en ég get ekki verið sammála honum vegna þess að ég hef lifað í þessu kerfi og ég veit hvernig þetta kerfi virkar. Ég get gefið honum einfalt dæmi. Það kom fram í umræðunni að 5.300 öryrkjar væru með laun á bilinu 300.000–350.000 kr. á mánuði. Þetta er tekið upp úr skattframtölum. En þetta segir okkur enga sögu vegna þess að þetta kerfi er orðið svo stagbætt og vitlaust að þetta eru ekki réttar tölur. Þær geta ekki verið réttar. Hvernig veit ég það? Ég veit það vegna þess að inni í þessum tölum eru lífeyrissjóðsgreiðslur. Inni í þeim eru launagreiðslur sem eru skertar ári seinna. Maður sem hefur sagt að hann hafi haft 350.000 kr. á mánuði í laun á síðasta ári var kannski með undir 300.000 vegna þess að 50.000 kr. á mánuði eru teknar af honum ári seinna. Það er óskiljanlegt í allri þeirri tækniveröld sem við lifum í að enn skuli vera við lýði svona kerfi sem segir bara hreint og beint rangt frá. Þetta sýnir að það er löngu tímabært, og hæstv. fjármálaráðherra ætti að vera sammála mér í því, að endurskoða almannatryggingakerfið algjörlega í heild sinni, gera það þannig gagnsætt að það fólk sem lifir í þessu kerfi viti nákvæmlega hvað það fær frá degi til dags. Það er hægt. Við getum verið með staðgreiðslu skatta. Við eigum alveg eins að geta verið með rauntölur af þessum hlutum. Ég held að eitt af því sem við eigum að drífa okkur í sé að einfalda þetta kerfi og sjá til þess að þeir sem eiga að lifa í því geti það frá degi til dags, þurfi t.d. ekki að reikna framtíðarverðbólgu. Hagfræðingar geta ekki einu sinni reiknað verðbólgu sem var eða hagsveiflu fyrir fram. Hvernig í ósköpunum á veikt fólk að geta reiknað út verðbólgu fram í tímann?