150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útboð á sjúkraþjálfun.

[15:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Við höfum áður skipst á skoðunum um mikilvægi sjúkraþjálfunar og deilum þeirri skoðun að um gríðarlega mikilvægan þátt í íslenskri heilbrigðisþjónustu sé að ræða, ekki síður að því er varðar almennt stoðkerfisvandamál, möguleg tengsl við að draga úr nýgengi örorku, sem við höfum líka rætt, og ég tala nú ekki um samspil við neyslu verkjalyfja.

Ég vil hins vegar geta þess í þessari umræðu að við sem önnumst um kaup á heilbrigðisþjónustu í gegnum Sjúkratryggingar Íslands vinnum samkvæmt lögum. Þar erum við að tala um lög um Sjúkratryggingar Íslands, fjárlög og lög um opinber innkaup. Okkur eru því reistar töluverðar skorður þegar um er að ræða þjónustu sem fer umtalsvert fram úr því sem liðurinn hefur á fjárlögum.

Ég vil þess vegna segja að öllum má vera ljóst sem veita þjónustu á grundvelli slíkra samninga að þeir samningar eru gerðir á grundvelli laga sem eru samþykkt á Alþingi. Ég vil líka segja við hv. þingmann að það er rangt í málflutningi hans að til standi að kaupa bara magn sjúkraþjálfunar en ekki gæði hennar. Í útboðsgögnum og öllu sem lagt er til grundvallar í þeim efnum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að um sé að ræða gæði og öryggi en ekki síst aðgengi þjónustunnar sem er það sem hv. þingmaður hefur líka áhyggjur af ef marka má orð hans varðandi aðgengi óháð búsetu.

Ég vil fullvissa hv. þingmann um að markmið okkar er að halda fjárlög, byggja á annarri löggjöf sem er í gildi í landinu og veita sem besta mögulegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.