150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útboð á sjúkraþjálfun.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari er í þessum útboðsskilmálum kveðið á um gæði, öryggi og aðgengi þjónustunnar. Það er auðvitað markmiðið að þjónustan sé eins góð og hægt er og að verið sé að veita þjónustuna þeim sem mest þurfa á henni að halda. Það verðum við að gera í allri heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað þeirra, hvort sem er hjá opinberum stofnunum eða þeim sem veita þjónustuna eftir öðrum leiðum, að tryggja að svo sé. Þegar Sjúkratryggingum Íslands er falið að ganga til samninga á grundvelli útboðs eru þeir samningar þannig hugsaðir að gætt sé að þessum þáttum. Um leið getur þjónustan ekki kostað meira en sem nemur þeim lið sem Alþingi hefur ákveðið á fjárlögum.