150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þetta er í annað sinn sem kemur sambærileg fyrirspurn með skömmu millibili. Ég svara alltaf eins. Ég legg áherslu á að stundum hefur okkur gefist vel að hafa þetta frelsi í útflutningi á ferskum fiski. Það er alveg ljóst að stór hluti þess sem kemur núna hér að landi hefur í auknum mæli farið á erlenda markaði og til þess liggja ýmsar ástæður. Sennilega er stærsti hlutinn sá að það er ódýrara, örugglega að einhverju leyti, að vinna þetta hráefni erlendis en hjá okkur og endurspeglast að því leytinu til í auknum útflutningi.

Þá koma upp þær spurningar hvort takmarka eigi með einhverjum hætti þann útflutning og setja hömlur á viðskipti með afla. Þar komum við að vanda málsins. Það hefur verið reynt í gegnum tíðina öðru hvoru, t.d. með álagi á gámafisk, en í því sambandi hef ég nefnt að við þurfum líka að huga að hagsmunum þeirra sem undir eiga og þá kannski fyrst og fremst sjómanna sem gera eðlilega kröfu um að fá sem hæst verð fyrir aflann. Á móti koma síðan hagsmunir fiskvinnslufólks, svo landverkafólksins. Ég hef raunar verið talsmaður þess að reyna að vinna sem mest af aflanum á heimamarkaði en leiðirnar í því að takmarka þetta eru vandfundnar.

Ég hef óskað eftir því við ráðuneytið að taka saman gögn um þennan útflutning þannig að við getum betur áttað okkur á því í hvaða magni þetta er, hvaða tegundir, hvert þetta fer o.s.frv. þannig að ég svara hv. þingmanni því að þetta mál er til skoðunar í ráðuneytinu. Ég hef engin ákveðin svör um það hvernig best væri að hamla þeim viðskiptum sem liggja undir.