150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

málefni lögreglunnar.

[15:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það þarf að ríkja traust og það er okkar verkefni að stofnanir sem tryggja öryggi landsmanna virki sem allra best. Varðandi þá umræðu sem fór fram um helgina af hálfu ríkislögreglustjóra átti ég fund með honum í dag og ræddi þessi orð hans sérstaklega. Það er óhjákvæmilegt, þegar embættismaður eins og ríkislögreglustjóri lýsir því að spilling ríki innan lögreglunnar, að brugðist sé við. Ég hef rætt þetta við ríkislögreglustjóra sjálfan en tel þó mjög brýnt að svona mál verði ekki leyst í fjölmiðlum, þau verða ekki leyst í fjölmiðlum.

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að spilling sé útbreidd innan lögreglunnar. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga, þegar þessi umræða kemur upp, að innan lögreglunnar er unnið mikilvægt og gott starf. Traust til lögreglunnar hefur verið mikið enda hefur lögreglan áunnið sér það með faglegum og vönduðum vinnubrögðum.

Það breytir því ekki að við þekkjum mál sem hafa komið inn á borð dómstóla og það er mikilvægt að taka á þeim með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Jafnframt hafa ýmis skref verið stigin undanfarið til að reyna að draga úr slíkri hættu hjá lykilstofnunum, þar á meðal lögreglu, og við munum auðvitað halda áfram á þeirri braut.

Sérsveitarmenn sendu frá sér yfirlýsingu, af því að hv. þingmaður nefnir þá sérstaklega, til ráðuneytisins og í kjölfarið ákvað ráðuneytið að gerð yrði úttekt á stjórnunarháttum og samskiptum innan embættisins. Það er til meðferðar og ég býst við að fá svör úr þeirri úttekt sem allra fyrst.