150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

þverpólitískt starf í samgöngumálum.

[15:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Nú er hér í samfélaginu til umræðu risavaxið fjárfestingarátak í innviðum höfuðborgarsvæðisins, fjárfestingarátak upp á rúma 100 milljarða, að sagt er, átak sem felur í sér, að sagt er, 6 milljarða viðbótargjaldtöku á íbúa höfuðborgarsvæðisins fyrir notkun á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins, að sagt er, því að þetta átak hefur ekki fengið neina opinbera kynningu.

Minni hlutinn er hér í á aðra viku að taka þátt í einhverri umræðu sem ekkert samráð hefur verið haft við minni hlutann um. Engin kynning fyrir minni hlutann hefur farið fram og það er vísað í kynningu fyrir sveitarstjórnarfulltrúa sömu flokka sem eru síðan bundnir trúnaði um innihald þeirrar kynningar. Er þetta dæmi um aukið samstarf og vandaðri vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar þegar ráðist er í verkefni sem lengi eiga að standa? Því að ég geri ráð fyrir því að liðlega 100 milljarða innviðaátak, að sagt er, hér á höfuðborgarsvæðinu, eigi að standa til nokkuð langs tíma.

Þessari ríkisstjórn verður tíðrætt um þverpólitískt samstarf en það verður auðvitað að gera þá kröfu að þegar hafa skal þverpólitískt samráð nái það samráð út fyrir raðir stjórnarflokkanna sjálfra.