150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

þverpólitískt samstarf í samgöngumálum.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja, af því að hv. þingmaður ræðir almennt um þverpólitískt samstarf, að ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur verið meira á þessu kjörtímabili en allan minn tíma á þingi sem er orðinn alllangur, 12 ár. Síðast í morgun var verið að kynna niðurstöður þverpólitísks hóps þar sem sátu bæði fulltrúar meiri hluta og minni hluta ásamt sérfræðingum um svokölluð velsældarmarkmið sem ég vona svo sannarlega að verði nýtt, ekki bara af minni ríkisstjórn heldur ríkisstjórnum framtíðar, við stefnumótun á vegum hins opinbera þar sem við horfum til miklu breiðari og fjölþættari mælikvarða en við höfum verið að gera hingað til þar sem við hverfum frá hinni einföldu mælingu um þjóðarframleiðslu, sem vissulega verður áfram mikilvæg, en horfum líka til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Þetta er gott dæmi um þverpólitískt samstarf sem ég er mjög ánægð með og ég gæti nefnt mörg fleiri í þessum þingsal því að, eins og ég segi hér og stend við, hefur ekki verið meira um svona samstarf frá því að ég byrjaði á þingi.

Það sem hv. þingmaður vísar til tengist, alveg hárrétt, framkvæmdum í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins sem hafa ekki verið kynntar enn þá. Það er alveg rétt og kannski merkilegast að fylgjast með fréttaflutningi af einhverju sem ekki hefur verið kynnt enn þá. Ég hef fulla samúð með hv. þingmanni, og hv. þingmönnum stjórnarliðsins líka, því að það er í raun og veru óðs manns æði að tjá sig um eitthvað sem ekki er búið að kynna og ekki búið að taka endanlega ákvörðun um.

Ég finn til með hv. þingmanni og skil sársaukann. Þær áætlanir sem hafa verið til umræðu, vissulega á milli stjórnvalda og sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu, byggja hins vegar á því sem fram kom í nefndaráliti samgöngunefndar þegar samgönguáætlun var afgreidd fyrr á þessu ári þar sem sérstaklega var rætt um að byggja þyrfti á þeirri forgangsröðun sem unnin hefur verið fyrir höfuðborgarsvæðið þegar kemur að stofnframkvæmdum annars vegar og uppbyggingu almenningssamgangna hins vegar og rétt sé að skoða leiðir til að skoða breytta gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta hefur verið til umræðu. (Forseti hringir.) Útfærsluna þarf að sjálfsögðu að kynna, ég tek undir með hv. þingmanni með það, en það er vissulega erfitt þegar málið er í raun og veru enn í vinnslu.