150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

þverpólitískt samstarf í samgöngumálum.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er stórmál og tengist ekki bara samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu heldur þeim orkuskiptum í samgöngum sem við erum búin að ákveða að ráðast í. Þau munu hafa áhrif á gjaldtöku af samgöngum. Það finnst mér vera stóra málið í allri þessari umræðu, sem hefur auðvitað verið dálítið út og suður, viðurkenni ég, og ég hef fylgst með henni svona eins og spennuþætti undanfarna daga.

Við þurfum að horfast í augu við það að ef við erum að fara í orkuskipti í samgöngum, sem er gríðarstórt loftslagsmál og líka gríðarstórt efnahagsmál, þurfum við að endurskoða hvernig við ætlum að setja gjöld á umferð. Það er mjög mikilvægt, að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður segir, að áður en frumvarp um slíkt er lagt fram eða ákvarðanir um slíkt eru teknar verði umræða innan þingsins. En það er líka eðlilegt að meiri hluti hverju sinni undirbúi mál, það er líka hluti af eðlilegum vinnubrögðum þegar við erum með meirihlutaríkisstjórnir. Það höfum við verið að gera. Við höfum verið að undirbúa þetta mál, eiga um það virkt samtal við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu, því að þetta varðar þær svo sannarlega, (Forseti hringir.) en í þeim anda sem kveðið er á um í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um síðustu samgönguáætlun. En vissulega þarf málið að fá sína eðlilegu umræðu á vettvangi þingsins.