150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka betri tíma til að ræða við hv. þingmann um verðtryggingu en við erum ekki það mikið ósammála, alla vega ekki hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði hér; hún er óeðlileg og allt það. Það þýðir hins vegar ekki að hvaða lausn sem er sé góð lausn við vandanum sem við erum að reyna að leysa hverju sinni. Gagnrýnin sem ég hef séð á húsnæðisliðinn í vísitölunni við útreikning verðtryggingar er fyrst og fremst sú að hann komi neytendum illa, komi lántakendum illa fjárhagslega. Ef það er vandamálið sem við erum að reyna að laga tel ég ekki að það vandamál verði lagað með þessu frumvarpi á þessum tímapunkti heldur verði það þvert á móti gert verra. Þetta er í raun og veru versta hugsanlega tímasetningin. Skásta hugsanlega tímasetningin eða besta hefði verið við lok hins svokallaða hruns, þ.e. þegar einhvers konar jafnvægi var að nást hjá okkur í efnahagnum. Það hefði verið góður tímapunktur vegna þess að þá hefði húsnæðisliðurinn haft hamlandi áhrif á vísitöluna í þann tíma, á meðan húsnæðisverðið hélt aftur af henni. En svo þegar húsnæðisliðurinn fór að fara hraðar upp en almennt verðlag, fór að standa meira í stað — við upphaf þess tímabils hefði verið góður tími til að gera þetta. Þá hefðum við verið að gera lántakendum greiða. Þá hefðum við verið að laga það vandamál að lán neytenda væru að fara upp. Við lögum það vandamál ekki með því að lögfesta þetta hér og nú vegna þess að akkúrat núna sjáum við kulda á húsnæðismarkaði. Mér finnst meira að segja alveg óhætt að segja að verðbólga hér væri hærri nú þegar ef ekki væri fyrir frekar glæsilegar varnir Seðlabankans, sem auðvitað hafa einhverjar takmarkanir inn í framtíðina. Mér finnst fyrirséð að þetta sé vondur tími núna.

Hvað varðar allt það sem hv. þingmaður sagði um eðlilegt ástand og eðlilega útreikninga á vöxtum er ansi margt í hagfræðinni sem ég myndi setja undir þann hatt, þar á meðal verðtryggingu. En eins og ég segi finnst mér það ekki tryggja að allar lausnir sem við leggjum fram séu sjálfkrafa (Forseti hringir.) góðar, bara vegna þess að við teljum verðtryggingu vera óeðlilega, jafnvel þó að við séum sammála um það.