150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Það hefur var lagt fram áður á síðasta þingi og hef ég verið einn af meðflutningsmönnum með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni. Áratugum saman hefur almenningur hér á landi þurft að búa við fjötra verðtryggingar og hárra vaxta á húsnæðislánum sínum. Sú séríslenska uppfinning sem verðtryggingin er var sett í lög fyrir 40 árum. Eins og framsögumaður kom inn á voru þá efnahagsaðstæður á Íslandi allt aðrar. Aðstæðurnar hafa svo sannarlega breyst, nú fyrirfinnast ýmsar leiðir til að fólk geti ávaxtað fé sitt og komið þannig í veg fyrir að það rýrni en samt er búið enn við verðtrygginguna. Þá var fjármálamarkaður hér á landi enginn en samt búum við enn við verðtrygginguna. Þá hafði Seðlabankinn ekki peningastefnu eins og nú er. Samt búum við enn við verðtrygginguna. Þá voru hér engir hlutabréfamarkaðir sem hægt væri að kalla svo en samt búum við enn við verðtrygginguna þótt í dag sé hér mun þróaðri hlutabréfamarkaður en þá var. Þá var hér enginn skuldabréfamarkaður svo heitið gæti en samt búum við enn við verðtrygginguna. Þá var hér óðaverðbólga, hálft hundrað prósent, en nú mörg undanfarin ár hefur verðbólga mælst undir þremur, fjórum prósentum en samt búum við enn við verðtrygginguna. Þá var hér mikill óstöðugleiki, olíukreppan nýgengin yfir og hafði hrist fjármálakerfi heimsins ærlega en nú er tiltölulega stöðugt umhverfi á fjármálamörkuðum og hefur verið lengi en samt búum við enn við verðtrygginguna.

Frumforsenda verðtryggingarinnar í upphafi var að verja peningalegar eignir sem fólk og lánveitendur höfðu á þeim tíma engar aðrar leiðir til að verja. Þær ástæður eru horfnar en samt búum við enn við verðtrygginguna. Við Íslendingar erum eina þjóðin með þessa sérhönnuðu formúlu sem heitir verðtrygging og formúlan tekur mið af ýmsum þáttum sem eru í engum tengslum við fjármálaumhverfi eins og það heilbrigðast gæti kallast. Þannig getur hlutur eins og lóðaskortur á mikilvægasta og langstærsta byggingarsvæði landsins haft stórkostleg áhrif á verðtrygginguna og þar með fjárhæðir sem fólk úti í bæ og fólk úti á landi fær engu ráðið um eins og dæmin sanna undanfarin ár. Hér í Reykjavík hefur verið viðvarandi lóðaskortur síðustu árin sem hefur haft áhrif á hækkun íbúðaverðs sem hefur svo áhrif á vísitöluna sem hækkar svo lán allra þeirra sem eiga verðtryggð húsnæðislán og þau skulda meira.

Herra forseti. Ákvörðun stjórnvalda um að leggja skatt sem t.d. er ætlaður til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda til að sinna skyldum sínum samkvæmt alþjóðlegum samningum hefur áhrif á verðtrygginguna vegna þess að hann hefur óbein áhrif á vísitöluna sem hækkar hana og hækkar þar með lán allra þeirra landsmanna sem skulda verðtryggð húsnæðislán. Einfaldur hlutur eins og ákvörðun á þessu löggjafarþingi um að hækka kolefnisgjald hækkar skuldir allra þeirra sem skulda verðtryggð húsnæðislán.

Hvert erum við þá komin? Slíkar breytingar verða til þess að verðtryggð húsnæðislán allra landsmanna hækka svo getur numið tugum eða hundruðum milljarða, eins og í tilviki húsnæðisliðarins, yfir 100 milljarða. Þannig er staðan, herra forseti. Við höfum samningssamband. Maður tekur lán hjá banka. Sagan byrjar þannig að maður fer í banka og tekur lán. Þetta eru samningsaðilarnir, þessi maður og bankinn. Lántaki lofar að greiða lánið til baka með vöxtum og verðbótum. Þá kemur þriðji aðili. Ef þriðji aðili trassar að bjóða lóðir á mikilvægu svæði hækkar lánið sem maðurinn tók. Ef þriðji aðili er stjórnvald sem ákveður að hækka umhverfisskatta til að sinna sínum alþjóðlegu skuldbindingum hækkar þetta lán algjörlega án tengsla við þann samning sem þessir tveir aðilar gerðu. Annar aðilinn skuldar meira og hinn eignast meira og þá án þess að neitt raunverulegt hafi gerst sem ætti að hafa áhrif á skuldaskil þessara tveggja aðila, bankans og skuldarans.

Mikill munur er á aðstöðu þessara tveggja samningsaðila, annar er tryggður í bak og fyrir, hefur einhvers konar kaskótryggingu, eins og flutningsmaður hefur nefnt þessa aðstöðu. Hann er kaskótryggðir fyrir öllum breytingum. Hann bara hallar sér aftur í sætinu og bíður. Hinn, óbreytti Íslendingurinn sem tók lánið, tekur alla áhættuna af samningssambandinu. Peningarnir koma eins og á færibandi og færibandið er knúið, af því að við erum að tala svo mikið um orku, einhvers konar eilífðarorku. Það rennur bara, það er eilífðarorka, peningarnir renna inn til annars samningsaðilans af þeim tveimur sem gerðu samning um að lána peninga og hinn lofaði að borga þá til baka. Þá er bara sérstakt færiband þarna sem færir peninga frá öðrum til hins. Það er ekki amalegt, herra forseti, að reka banka við svona aðstæður, ekki amalegt fyrir bankana að eiga eilífðarfæriband sem er knúið orku sem aldrei þrýtur, herra forseti, vegna þess að skuldarinn skuldar þessa upphæð í verðtryggðum krónum.

Verðtryggðar krónur, herra forseti, eru ekki eins og venjulega krónur. Verðtryggða krónan er svipuð og fyrir hrun þegar menn tóku lán í erlendri mynt, þeir höfðu engin tök á að vita hvað þeir myndu borga til baka. Þeir fengu launin sín í íslenskum krónum og höfðu ekki grænan grun um það hvort þessi erlenda mynt sem þeir skulduðu í myndi hækka eða lækka, enda fór sem fór. Verðtryggða krónan er einmitt svona, hún er algjörlega úr sambandi við venjulegu íslensku krónuna sem við þekkjum. Við fáum launin okkar í henni en verðtryggða krónan getur sveiflast, eins og ég tók dæmi um áðan, eftir lóðaskorti, herra forseti. Samningsaðilarnir, annar er venjulegur einstaklingur, kannski húsmóðir, en hinn er öflug bankastofnun. Eins og hv. flutningsmaður nefndi er aðstaða þessara aðila mjög ójöfn.

Ég hef ekki verið lengi á þingi en áður en ég hóf störf hér man ég eftir því að stjórnmálaflokkarnir, meira og minna allir stjórnmálaflokkar sem hér hafa verið, hafa lofað reglulega fyrir kosningar að afnema verðtrygginguna. Hvað kemur í veg fyrir það, herra forseti, að menn efni þetta loforð? Hvenær á þessu að linna? Hvenær öðlast löggjafarþingið hugrekki til að afnema þann hrylling sem verðtryggingin er?

Þetta frumvarp, herra forseti, felur í sér fjórar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Það er ekki þess efnis að verðtrygging væri bönnuð heldur að það settar verði ýmsar girðingar eins og hv. þingmaður nefndi, það væri tangarsókn gegn verðtryggingunni, þ.e. að óbeinir skattar eru teknir út úr útreikningum á vísitölunni, eins og t.d. kolefnisskatturinn sem ég nefndi áðan. Húsnæðisliðurinn yrði tekinn út í öðru lagi eins og það sem ég nefndi áðan varðandi hækkun íbúðaverðs vegna algjörlega ófyrirséðra og óvæntra, jafnvel stjórnmálalegra, atvika eins og við þekkjum dæmi um á höfuðborgarsvæðinu þar sem lóðaskortur hefur orðið til þess að húsnæðislán hækkuðu um yfir 100 milljarða á nokkurra ára tímabili. Í þriðja lagi yrðu vextir á þessum lánum ekki hærri en 2% og í fjórða lagi að verðtryggð jafngreiðslulán með veði í íbúðarhúsnæði mættu ekki vera lengri en til 25 ára.

Ég vonast til þess, herra forseti, að þetta frumvarp hljóti hér málefnalega umræðu og síðar góða umfjöllun í viðeigandi nefnd.