150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

almannatryggingar.

6. mál
[17:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa stuðningi mínum og okkar Pírata við þetta góða mál. Ég tel það mikilvæga réttarbót og að það sendi skýr skilaboð um að öll eigum við rétt á mannsæmandi kjörum. Mig langar að setja þetta í samhengi við málefni sem er mér kært, mannréttindi, og ræða það í samhengi við félagsleg réttindi. Við erum aðilar að samningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og höfum sem slíkt ríkisvald ákveðnum skyldum að gegna. Þar á meðal er að tryggja öllum þak yfir höfuðið, tryggja rétt til bestu mögulegu heilsu og rétt til mannsæmandi kjara, að þurfa ekki að óttast um fjárhagslegt öryggi sitt. Félagsleg réttindi eru aðeins öðruvísi en borgaraleg réttindi að því leytinu til að þau eru ekki eins afgerandi. Í félagslegum réttindum felst hins vegar skuldbinding ríkisvaldsins til að gera alltaf betur með hverju árinu sem líður nema eitthvað virkilega stórt komi í veg fyrir það, eins og t.d. efnahagshrun. Þannig er t.d. ólíðandi að við séum ekki að bæta heilbrigðiskerfið um þessar mundir þegar vel árar vegna þess að réttur okkar til bestu mögulegu heilsu segir fyrir um að ríkisvaldið þurfi alltaf að sýna fram á það geri betur núna í að tryggja rétt allra til bestu mögulegu heilsu en það gerði fyrir fimm árum.

Hið sama á við um þau félagslegu réttindi að hafa þak yfir höfuðið og mannsæmandi lífsviðurværi. Miðað við þróunina í þessum málaflokki höfum við bara alls ekki staðið við þær skuldbindingar. Það er til skammar, virðulegi forseti, að velsældarríki eins og Ísland geti ekki sýnt óyggjandi fram á að það virði mannréttindi borgara sinna, sér í lagi félagsleg réttindi borgara sinna. Þau eru prógressíf að því leyti að það þarf alltaf að reyna að gera betur. Ríki eins og okkar ættu ekki eiga í neinum vandræðum með að gera það, bara alls ekki neinum. Samt þurfa öryrkjar að slást fyrir hverri einustu smánarkjarabót sem þeir fá. Mér finnst það ekki ásættanlegt. Mér finnst það ekki standast skuldbindingar okkar gagnvart almenningi á Íslandi, þá sér í lagi öryrkjum, að vera ekki búin að gera betur núna en raun ber vitni. Mögulega skýrir þetta tregðu meiri hlutans gagnvart því að samþykkja bókun þess efnis að við föllumst á lögsögu nefndar um félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi vegna þess að við viljum ekki fá áfellisdóm frá nefndinni sem hefur túlkunarvald yfir þessum samningi. Hún hefur að sönnu ekki lagalegt úrskurðarvald eða einhvers konar dómstólavald en við viljum ekki fá áfellisdóminn þaðan um að við stöndum ekki við okkar skuldbindingar gagnvart samningnum. Ég held að það gæti vel skýrt tregðuna, skýrt það að tillaga okkar Pírata um að við göngumst við valfrjálsri bókun um að hafa aðgang að þessari nefnd hafi ekki fengið framgang til þessa. Stjórnvöld vilja ekki horfa í spegil.

Mér finnst þetta mjög mikilvægt frumvarp, mér finnst það skref í rétta átt og ég vona að það hljóti meiri hluta á þessu þingi og góðan framgang í þinglegri meðferð.