150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

45. mál
[17:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum mál hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, kæruheimild samtaka. Eitt atriði sem ég rakst á í þessu máli hringdi viðvörunarbjöllum hjá mér, en það er orðalagið:

„… óháð því hvort þau eigi sjálf lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.“

Ég hef lent í því í eigin máli að ég hafði ekki einu sinni lögvarða hagsmuni af því að verja það þannig að ég set spurningarmerki við þetta. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki hrædd um að þarna sé verið að opna ormagryfju þannig að í öllum tilfellum verði hægt að nota þetta, upp á mismunun, að ekki verði bara hægt að nota það í einu máli heldur öllum. Ég er að velta því fyrir mér hvaða áhrif það gæti haft á dómstóla. Ég skil alveg þá þörf að náttúran eigi að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti, en ég spyr mig líka um tíma. Við vitum að það tekur langan tíma að fara með mál fyrir dómstóla og ég spyr hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að þetta muni stífla dómskerfið. Það er hætt við því að flestöll mál sem varða framkvæmdir í sambandi við virkjanir fari fyrir dómstóla og þá verði málafjöldinn óheyrilegur. Ég velti þessu fyrir mér og líka þessu með lögvarða hagsmuni, hvort það verði þá ekki að gilda um öll mál.