150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

sjúkratryggingar.

8. mál
[18:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir frábæra flutningsræðu. Mér finnst öll aðalefni frumvarpsins hafa komið mjög skýrt og vel fram í máli hennar og tel mig ekki þurfa að fara efnislega yfir þá miklu kosti sem í samþykkt þess felast. En mig langaði að koma hingað upp til að lýsa stuðningi okkar við þetta mál. Við erum á málinu og þetta er mál sem skiptir okkur öll miklu máli og ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að fara að jafna bilið á milli þess hvernig við komum fram gagnvart andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Mig langaði kannski aðeins að tæpa á samspili andlegra og líkamlegra sjúkdóma og hvernig kerfið, eins og það er í dag, tekur ekki nægilega vel á þeim. Eins og við vitum getur það haft alvarlegar andlegar afleiðingar að verða alvarlega veikur eða lenda í slysi. Eins og kerfið er sett upp í dag höfum við ekki burði til að bjóða fólki þann nauðsynlega stuðning sem það þarf til að takast á við slíkt gagnvart andlegu hliðinni. Sömuleiðis geta andleg veikindi leitt af sér alvarleg líkamleg veikindi. Svona spilar þetta saman. Þess vegna, og af mörgum öðrum ástæðum sem hv. þingmaður taldi svo vel upp áðan, hlýt ég að taka heils hugar undir að þetta er mjög mikilvæg langtímafjárfesting í mannauðnum og í fólkinu sem við eigum á þessu landi, að veita öllum aðgang að þeim stuðningi sem þeir þurfa til þess að búa við andlegt heilbrigði vegna þess að það er löngu búið að viðurkenna að við eigum jafn mikinn rétt á besta mögulega andlega heilbrigði og við eigum á bestu mögulegu líkamsheilsu.

Ég kom inn á áðan í öðru máli hvað felst í félagslegum réttindum. Hvers konar skuldbinding felst í félagslegum réttindum eins og t.d. réttinum til bestu mögulegu heilsu? Við sem höfum undirgengist að ætla að virða rétt allra á Íslandi til bestu mögulegu heilsu þurfum að sýna fram á að staðan í dag sé töluvert betri en hún var fyrir fimm árum síðan. Þannig virka félagsleg réttindi, til þess að uppfylla þau þurfum við að sýna fram á stöðuga framþróun, stöðugt að bæta í og efla hin félagslegu réttindi vegna þess að þau eru ekki í línuleg og afgerandi eins og borgaraleg réttindi en fela í sér þá skuldbindingu að gera alltaf betur.

Að mínu viti getum við ekki sýnt fram á að við höfum uppfyllt þá skuldbindingu síðastliðin ár, ekki nógu vel. Mér finnst að ríki sem er jafn vel statt og okkar hafi alla burði til þess að uppfylla þau réttindi og sýna fram á að geðheilbrigðiskerfið okkar sé betur statt, miklu betur statt, til að tryggja rétt allra til bestu mögulegu geðheilsu en það var fyrir fimm árum síðan. Þetta er eins og mér finnst að við eigum að geta sýnt fram á það miklu betur að heilbrigðiskerfið okkar sé mun betur statt til að tryggja rétt allra til bestu mögulegu heilsu en það var fyrir fimm árum síðan. Eina afsökunin sem við höfum fyrir því að gera það ekki eru stórfelld áföll í efnahagslífinu, eitthvað alveg katastrófískt, eins og t.d. efnahagshrun. En við höfum ekki þá afsökun akkúrat núna, virðulegi forseti, þannig að við höfum enga afsökun fyrir því að vera ekki að stíga stærri skref og betri í að uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart félagslegum réttindum borgara á Íslandi.

Mig langar að bæta við að ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli fyrir ekki bara andlega heilsu fólks á Íslandi og líkur á því að fólk veikist síðar á lífsleiðinni eða að andleg veikindi leiði af sér líkamleg veikindi eða öfugt, að líkamleg veikindi leiði svo af sér andleg veikindi, heldur eru ýmsir þættir eins og t.d. sálfræðiþjónusta fanga sem þyrftu að vera miklu betri. Og líka, þar sem hv. þingmaður minnist á forvirkar aðgerðir: Geðheilbrigðisþjónusta fyrir fólk sem verður fyrir áföllum, hvers kyns sem það er, hvort sem um er að ræða afbrot eða það jafnvel að foreldri sé sett í fangelsi, er ekki í boði eins og staðan er í dag, hún er alla vega ekki nægilega aðgengileg. Ef þetta er gert núna á jöfnum grundvelli þannig að hver sem er, rétt eins og við getum sótt okkur heilbrigðisþjónustu, geti sótt sér geðheilbrigðisþjónustu til að takast á við áföllin í lífinu þá held ég að við munum líka sjá töluvert lægri glæpatíðni, töluvert minni líkur á því að fólkið í landinu leiðist á braut afbrota, ef það fær stuðning um leið og áföllin dynja yfir og um leið og fólk er farið að sýna einhver merki um að það eigi mögulega erfitt með að halda sig innan ramma laganna, mögulega vegna áfalla í lífinu. Þetta er eitthvað sem mér finnst að við þurfum að huga miklu betur að. Af hverju er ekki eitthvað sem tekur utan um börn þegar þau lenda í því að foreldri er tekið frá þeim og sett í fangelsi? Það er ekkert kerfi sem sér um það. Það er ekkert sem fer sjálfkrafa í gang.

Þetta var stutt hugleiðing um það. Ég held að með auknu aðgengi sé töluvert auðveldara fyrir langflesta að sækja sér nauðsynlega hjálp og ég hlýt að fagna því. Ég fagna þessu máli og styð það heils hugar.