150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Þorsteini Víglundssyni og leggja það til að forseti ræði þetta við ríkisstjórnina. Hann hefur stundum haldið hennar hlutum á lofti, m.a. við þingsetningu þar sem hann talaði um þykkt þingmálabunka og annað slíkt, þannig að hann hlýtur að geta talað við þau.

Hér í gær fullyrti hæstv. forsætisráðherra að aldrei á hennar tíð í þinginu hefði verið gert meira í samráði stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er bara ekki rétt og það er ömurlegt að nú skuli eiga sér stað eitthvert paniksamráð út af umferðaráformum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og við erum að fara að ræða hér grundvallarhluti eins og tekjuskattsbreytingar, barnabætur, niðurfellingu bankaskatts og annað. Ég legg til að forseti ræði við hæstv. forsætisráðherra.