150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði nú bara að vera málefnaleg að venju og taka undir með öðrum í stjórnarandstöðunni en ég verð að viðurkenna að það fýkur dálítið í mig þegar ég sé forseta koma svona fram. Það er ítrekað verið að segja okkur hvernig og hvar við megum tjá okkur í þessum þingsal og það er óþolandi. Ég er þá búin að koma því frá.

Mér finnst sjálfsagt að fundi sé frestað á meðan við hittum samgönguráðherra og ræðum samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég er orðin svo vön þessu kaosi, það er aldrei neitt undirbúið, maður veit aldrei hvað er að fara að gerast á þessum vinnustað. Maður er nánast orðinn samdauna því og ég er bara ánægð með að fólk stóð hér upp og sagði: Hingað og ekki lengra. Við viljum fá skipulag á þetta. Við viljum fá hlé til að geta tekið þátt í tveimur mjög mikilvægum umræðum sem að sjálfsögðu eiga ekki að vera á sama tíma. Mér finnst sjálfsagt mál að forseti komi til móts við okkur og skipuleggi þetta þannig að við getum tekið þátt í báðum umræðunum.